*

Heilsa 6. janúar 2014

Fólk sem vinnur heima einangrað

Fólk sem vinnur heima hja sér talar oft ekki við aðra manneskju svo dögum skiptir.

Fólk sem vinnur heima hjá sér verður sífellt einangraðra vegna nútímatækni. Þetta kemur fram í áhugaverðri grein á vefmiðlinum The New York Times.

Þar kemur fram að rithöfundar og aðrir, sem vinna heima, eiga alltaf meiri og meiri samskipti í gegnum tölvupóst og samfélagsmiðla á borð við Twitter og Facebook. Fólk á vissulega í samskiptum við umheiminn og er jafnvel að kjafta allan daginn en þrátt fyrir það þá talar það kannski ekki upphátt við aðra manneskju svo dögum skiptir.

Æ algengara er að fólk sendi SMS skilaboð áður en það hringir og spyrji: „Geturðu talað?" Í rannsókn sem gerð var 2012 sýnir að 80 prósent þeirra sem nota farsíma nota þá til að senda SMS skilaboð í samanburði við 58 prósent árið 2007.

Þessi þróun hefur auðvitað mest áhrif á þá sem vinna að heiman. Í greininni er rætt við Brennu Haysom, stofnanda Blowfish. Þegar hún ákvað að stofna fyrirtæki sitt hætti hún að vinna á skrifstofu og sat í staðinn ein allan daginn án þess að tala við neinn. Hún sagði að það hafi tekið á andlega. Fleiri sem rætt er við í greininni eru á sama máli um að það hafi mikil áhrif á manneskju að tala ekki upphátt við aðra manneskju svo vikum skipti. Það valdi þvi að þegar þetta fólk hittir loks annað fólk eigi það oft erfitt með samskipti, það þreytist auðveldlega og sé í raun ryðgað þegar kemur að því að finna upp á orðum þó það eigi ekki í nokkrum vandræðum með að skrifa langan og flókinn texta. 

Stikkorð: tækni  • Einangrun