*

Menning & listir 19. mars 2013

Fólkið í blokkinni sýnt á RÚV í haust

Upptökur á sjónvarpsþáttunum Fólkinu í blokkinni hefjast í vor. Þættirnir verða sex talsins.

Lára Björg Björnsdóttir

Upptökur á nýrri sjónvarpsþáttarröð hefjast nú um miðjan maí en þættirnir eru gerðir eftir bókinni „Fólkið í blokkinni" eftir Ólaf Hauk Símonarson.

Þættirnir eru fjölskylduþættir en sagan fjallar um fjölskyldu sem býr í blokk. Aðalpersónan heitir Vigga, 11 ára og hún á tvö systkini, bróður sem er 8 ára og unglingssystur. Foreldrana leika þau Gunnar Hansson og Katla Margrét Þorgeirsdóttir. Þórhallur Sigurðsson eða Laddi leikur afann og Steinn Ármann Magnússon leikur Robba húsvörð.

Þættirnir verða sex talsins og hver þáttur 30 mínútur að lengd. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins komu um 700 börn í prufur fyrir hlutverk í þáttunum en áheyrnarprufur standa enn yfir og er hópurinn kominn niður í 100 börn.  

Ekki er enn búið að finna blokkina fyrir upptökurnar en þær munu bæði fara fram á vettvangi og í stúdíói.

Pegasus framleiðir þættina og Kristófer Dignus leikstýrir þeim.