*

Bílar 4. desember 2012

Ford Fiesta með verðlaunuðu eins lítra vélinni

Bílaframleiðandinn Ford fer ótroðnar slóðnir.

Á síðustu árum hafa dísilbílar selst í töluverðu mæli á Íslandi enda hafa íslenskir bíleigendur sóst eftir því að milda áhrif gríðarlegra eldsneytishækkana með því að kaupa sparneytnari bíla. Tækniþróun í bensínvélum hefur hinsvegar verið mjög hröð síðustu tvö árin og nú er svo komið að Ford býður 1,0 lítra EcoBoost vél sem skilar afli á við 1,6 til 2,0 lítra vél og eldsneytisnotkun á við sparneytna 1,6 lítra dísilvél. Vélin hefur hlotið verðlaun sem vél ársins 2012 fyrir mikkla hugkvæmni og hún höfðar til þeirra sem vilja forðast dísilvélar. 1,0 lítra EcoBoost vélin sem þegar fæst í Ford Focus og er væntanleg í Ford Mondeo er nú einnig á leiðinni í Ford Fiesta.

Til að ná þessu markmiði fór Ford ótroðnar slóðir. Með því að þróa þriggja strokka, eins lítra vél, með túrbínu hefur Ford tekist að framleiða vél sem skilar afli á við 1,6 lítra, eða jafnvel 2,0 lítra vél, en þó með eldsneytisnotkun sem er aðeins á við sparneytna 1,6 lítra dísilvél. Kosturinn er sá að með bensínvélinni fæst einföld vél sem er afar hagkvæm í viðhaldi og býður teygjanleika í afli og togi sem erfitt er að ná fram nema í dýrustu dísilvélunum.

Samkvæmt upplýsingum frá Brimborg  hafa margir prófað nýju 1,0 EcoBoost vélina í nýjasta Ford Focus bílnum. Hún er undurþýð og skilar miklu afli miðað við stærð. 

Nú liggur fyrir að þessi sama vél mun einnig fást í Ford Fiesta en þessi vinsæli smábíll verður án efa ljónskemmtilegur með þessari snjöllu vél. Á sama tíma mun bíllinn fá nýjan framenda en með þessum breytingum ætti Ford Fiesta 1,0 EcoBoost að vera mjög aðlaðandi bíll.

Stikkorð: Ford  • Ford Focus  • Ford Fiesta