*

Bílar 22. janúar 2016

Ford Kuga og Kia Optima frumsýndir

Brimborg og Askja kynna hvor um sig nýjar tegundir bíla frá Ford og Kia.

Tveir nýir bílar verða frumsýndir hér á landi á morgun, laugardag. Brimborg kynnir nýja Ford Kuga sportjeppa til leiks og Askja kynnir fjórðu kynslóð fólksbílsins Kia Optima. 

Nýr Ford Kuga

Ford Kuga er fjórhjóladrifinn jeppi sem er tilvalinn til ferðalaga enda dráttargetan er mikil eða 2.100 kg. Veghæðin er jafnframt mikil eða um 20 cm undir lægsta punkt. Ford Kuga er í boði sjálfskiptur og beinskiptur, dísil eða bensín. Dísilvélin hefur fengið mikið lof fyrir sparneytni og lága koltvísýringslosun. Ford EcoBoost bensínvélin er einnig mjög sparneytin og hefur fengið fjöldann allan af viðurkenningum.

Má þar nefna skynvætt tölvustýrt fjórhjóladrif (Intelligent All-Wheel Drive system) sem lagar sig að undirlagi og ástandi vega, Ford SYNC raddstýrt samskiptakerfi með Bluetooth og neyðarhringingu í 112, íslenskt leiðsögukerfi, 8" snertiskjá í miðjustokk, 4,2" TFT litaskjá í mælaborði, tvískipta tölvustýrða miðstöð með loftkælingu og 17" álfelgur.

Ford SYNC samskiptakerfið með Bluetooth og neyðarhringingu er staðalbúnaður í Ford Kuga. Með raddstýringu getur þú hringt símtöl og stjórnað tónlistinni. Ford SYNC er líka öryggisbúnaður. Ef maður lendir í óhappi þá hringir SYNC sjálfkrafa í 112 og sendir nákvæm GPS hnit bílsins. Ford Kuga Titanium er jafnframt búinn rafdrifnum afturhlera með skynjara. Hægt að færa fótinn einfaldlega undir stuðarann og þá opnast eða lokast afturhlerinn. 

Fjórða kynslóð Optima

Fjórða kynslóð Kia Optima lofar góðu en bíllinn er flaggskipið í fólksbílalínu Kia. Mestu breytingarnar eru að framan þar sem komin eru ný LED aðalljós og þokuljós og að aftan eru komin ný og lagleg LED ljós. Talsverð breyting er í innanrýminu og þar er nú að finna meiri þægindi og lúxus en áður. Kia Optima kemur hingað til lands eingöngu í Premium útfærslu til að byrja með en mun verða síðar í boði í EX úgáfu.

Í Premium útgáfu er Kia Optima mjög vel búinn með leðursætum, glerþaki, bakkmyndavél og rafstýrðum framsætum svo eitthvað sé nefnt. Í bílnum er tæknivæddur 8” upplýsingaskjár sem er staðalbúnaður og veitir aðgengi að öllu því helsta sem ökumaður og farþegar þurfa á að halda. Bíllinn er einnig með þráðlausri hleðslu fyrir snjallsíma og lyklalausu aðgengi.

Nýr Optima er enn stærri og rúmbetri en forverinn sem nú þykir rúmgóður í alla staði. Ný og endurhönnuð 1,7 lítra dísilvél er í nýja bílnum sem skilar 141 hestöflum. Þessi nýja vél er bæði eyðslugrennri og umhverfismildari en í forveranum. Þá kemur Optima með nýrri 7 gíra DCT sjálfskiptingu sem fengið hefur mjög góða dóma.

Stikkorð: Bílar  • Ford  • Brimborg  • Kia  • Askja