*

Bílar 30. apríl 2014

Ford Mustang gullmolar til sýnis

Hvorki meira né minna en 50 bílar verða í Brimborg um helgina til að fagna 50 ára afmæli Ford Mustang.

Dýrmætustu og sjaldgæfustu Ford Mustang bílar landsins verða samankomnir á 50 ára afmælissýningu Ford Mustang í Brimborg um helgina. Aðgangur er ókeypis og sýningin er opin frá kl. 11-16, bæði laugardag og sunnudag. 

Hvorki meira né minna en 50 bílar verða á staðnum til að fagna 50 ára afmæli Ford Mustang. Meðal bíla sem verða á staðnum er Mustang Shelby GT-500 Eleanor ´67 sem er eftirlíking af Mustang bílnum úr myndinni Gone in 60 Seconds. Mustang Mach-1 ´71 verður líka á staðnum en sá bíll hefur verið í uppgerð í meira en 30 ár og er töluvert breyttur. 

Elsti Ford Mustang landsins verður einnig til sýnis. Sá bíll var framleiddur 8. maí ´64, eða einungis þremur vikum eftir að Ford Mustang kom fyrst á markað. Mustang Boss 429 ´69 í upprunalegu ástandi verður líka á sýningunni en einungis 859 eintök af bílnum voru framleidd. Ekki má gleyma Mustang HCS ´66 en aðeins 333 eintök voru smíðuð og þessi bíll er eini bíllinn utan Bandaríkjanna.

Þetta er einungis brot af þeim bílum sem verð til sýnis en meðal fjölda annarra spennandi bíla verða Mustang Saleen Sterling S302E, Mustang LX´86 og Mustang Shelby GT-500 ´07 sem er margfaldur Íslandsmeistari í kvartmílu, á staðnum. 

Stikkorð: Ford Mustang