*

Heilsa 2. mars 2014

Foreldrar of fljótir að grípa inn í

Það getur verið erfitt og áreynslumikið verk að kenna börnum á skíði þó að vissulega séu til undantekningar.

Það þarf þolinmæði og þrautseigju til að kenna börnum á skíði og mörg hver fara ekki ógrátandi frá slíku verki, svo ekki sé minnst á foreldrana. Skíðaskólinn í Bláfjöllum er opinn um helgar og þar geta börn frá fimm ára aldri fengið kennslu hjá skíðakennurum sem hefur einfaldað mörgum foreldrum lífið. Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, segir aðsóknina hafa verið að aukast með hverri helgi sem opið hefur verið í vetur. Skíðaskólinn er bæði fyrir börn og fullorðna en Einar segir það aðallega vera born sem fái kennslu.

Forréttindi að vera skíðakennari
Skólinn byrjar klukkan 11 á morgnana og er til þrjú um daginn. Kennarar fara með skíðakappana í hádegismat á þessum tíma en foreldrar eru fjarri góðu gamni meðan á þessu stendur. Einar segir foreldra oft vera of fljóta að grípa inn í þegar þeir ætla að kenna börnunum sínum á skíði. „Foreldrar eru fljótir að grípa barnið og að passa það. Strax og það heyrist smá væl er hlaupið til, barninu lyft og haldið á því. Það er eiginlega það sem er erfiðast. Við höldum aldrei á börnunum og látum þau gera allar hreyfingar sjálf sem er stærsta breytingin.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: Skíði