*

Bílar 14. febrúar 2021

Forfallin jeppadellukona

Aldís er mikil jeppadellukona, náttúruunnandi og ferðafíkill og á forláta Ford 350 á 49” dekkjum.

Róbert Róbertsson

„Jeppinn okkar er Ford F350 Superduty, 2005 árgerð. Hann er með 6 lítra Powerstroke turbo dísilvél. Fordinn er með 5 gíra sjálfskiptingu, milligír sem þýðir að hægt er að hafa tvö lágadrif til að fara extra hægt,“ segir Aldís Ingimarsdóttir, kennari í tæknifræði í HR.

„Jeppinn er með 5,13 drifhlutföll og loftlæsingar, 49” dekk með „double beadlock“, en það þýðir að dekkin geta ekki affelgast þó að það sé lítið loft í þeim. Við hjónin höfum breytt nokkrum jeppum en fengum Gunnar í Icecool til að breyta þessum jeppa árið 2005. Það er klippt extra mikið úr honum til að hafa hann sem lægstan, þannig er hann öruggari í hliðarhalla. Þessi sérviska hefur alveg borgað sig því mér finnst ekkert voða þægilegt að hallast mikið.“

,,Við hjónin höfum átt nokkra bíla m.a. Toyota Hilux árgerð 1985, Range Rover, og Patrol með amerískri vél. Við höfum gaman af að prófa ýmsar tegundir. Nú er Fordinn orðinn nærri 16 ára og við höfum aldrei átt bíl svona lengi áður. Hann hefur reynst okkur ótrúlega vel, bilað ótrúlega lítið og verið léttur í viðhaldi. Svo drífur hann bara ennþá svo dæmalaust vel. Ég held að vísu að ökumaðurinn hafi mikið að segja en við þekkjum orðið bílinn vel og vitum mörkin,“ segir hún.

Náttúruunnandi og ferðafíkill
Aldís kennir eins og áður segir tæknifræði í HR. ,,Tæknifræðin er 3,5 árs háskólanám sem er kennt í HR og hægt að velja milli rafmagnstæknifræði, vél-og orkutæknifræði og byggingartæknifræði. Svo er hægt að bæta við sig ca. 2 ára meistaranámi og klára þannig verkfræðigráðuna líka. Ég kenni aðallega byggingartæknifræði fögin; jarðtækni, vega- og gatnagerð og lagnahönnun utanhúss. Byggingatæknifræðingar geta unnið á mjög breiðu sviði, allt eftir hvar áhuginn liggur. Til dæmis í tengslum við vegi, götur, brýr, stíflur, skipulagningu, burðaþolshönnun húsa og lagnir innanhúss og utan. Tæknifræði er krefjandi nám og ákveðin inntökuskilyrði svipuð og felst í stúdentsprófi en það er í raun mjög sniðugt að vera með iðnnám þar sem verkkunnáttan er mjög gagnleg en gjarnan vanmetin í námi,“ segir hún og tekur fram að hægt sé að bæta við sig góðu undirbúningsnámi í HR ef maður uppfyllir ekki skilyrðin.

,,Ég er mikill náttúruunnandi og ferðafíkill og það leiddi mig líklegast inn á þetta svið. Þegar ég var að reyna að finna út hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór fannst mér verkfræði mjög skynsamlegt fag. Og þar sem ég var með jeppadellu valdi ég vélaverkfræði en fann mig ekki alveg í náminu, fylgdi þá hjartanu og prófaði jarðfræði í eitt ár. Það svalaði heilmikilli forvitni gagnvart myndun Íslands og gerði ferðalög ennþá skemmtilegri. Ég ákvað samt að klára verkfræðina, svona fyrst ég var búin með fyrsta árið í henni en þó með jarðfræðinálgun. Ég færði mig yfir í byggingarverkfræði og tók síðan í meistaranáminu allt sem tengdist jarðtækni og vegagerð en þetta eru í raun mjög tengd fög,“ segir Aldís en hún er einnig formaður Jarðtæknifélags Íslands.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.