*

Tölvur & tækni 17. september 2012

Forsala á iPhone 5 slær öll met

Tvær milljónir höfðu pantað sér nýja símann frá Apple á fyrsta sólarhringnum, sem er tvöfalt meiri eftirspurn en í fyrra.

Á einum sólarhring pöntuðu ríflega tvær milljónir manna iPhone 5 snjallsíma í forsölu, sem er tvöfalt meiri eftirspurn en var á sama tíma í fyrra, þegar iPhone 4S síminn fór í sölu. Í frétt Reuters segir að eftirspurnin sé töluvert meiri en gert var ráð fyrir hjá Apple. Flestir símarnir verði þó afhentir á föstudaginn, en pantanir verði þó ekki allar kláraðar fyrr en í október.

Eins og við var að búast hækkuðu hlutabréf Apple í verði við fréttirnar, eða um 0,8%, og er gengið nú um 697 dalir á hlut. Ef marka má forsöluna er útlit fyrir að afkoma Apple á fjórða ársfjórðungi verði jafnvel enn betri en gert hefur verið ráð fyrir hingað til, en síminn fer í sölu víðs vegar um heiminn þann 28. september næstkomandi.

Stikkorð: Apple  • iPhone 5