*

Bílar 22. maí 2010

Forseti Rússlands vill Zil eðalvagna í stað Mercedes Benz

Hyggst endurvekja framleiðslu á þessum fornfrægu eðalvögnum gömlu Sovétríkjanna.

Dimitry Mededev forseti Rússlands vill skipta út forsetabílnum sem er af gerðinni Mercedes Benz í staðin fyrir rússneska „limmúsínu”. Hefur hann fyrirskipað ráðuneyti sínu að kanna möguleik á því að endurnýja framleiðslu á Zil hinum víðfræga eðalvagni Sovétríkjanna sálugu.

Vilja smíða nýjan Zil

Í frétt The Moscow Times um málið, sagði Vladimir Kozhin, yfirmanni eignaumsýslu forsetaembættisins, á Ekho Moskvy útvarpsstöðinni að fyrir liggi tilskipun í þessa veru. Viðræður séu í gangi við verksmiðjur og að hann útiloki ekki að það geti komið til þess að gamli Zil bíllinn í nútíma útgáfu komi aftur á götuna. Hann sagði þó að bíllinn  yrði ekki smíðaður af gömlu Zil verksmiðjunum, heldur væri verið að leita að framleiðanda sem gæti uppfyllt þær óskir sem gerðar væru til bílsins.

Elsti bílaframleiðandi Rússlands

Zil bílaverksmiðjurnar voru settar á fót 1916 og var þetta elsti bílaframleiðandi Rússlands. Fyrirmyndin af Zil bensínsvelgjunum var hinn bandaríski Pachard bíll. Voru Zil bílarnir notaðir af ráðamönnum í Kremlin allt frá Stalin til Gorbachev. Síðasta módelið var af árgerð 1991 og var með 7,7 lítra V-8 bensínvél og var bíllinn 3,5 tonn að þyngd. Aðeins örfá eintök voru smíðuð af þeirri gerð.

Lítið er þó eftir af hinni fornu frægð þessa framleiðanda því árið 2005 var aðal verksmiðja fyrirtækisins seld upp í skuldir. Var verksmiðjunni síðan breytt í verslunarmiðstöð. Zil hefur þó haldið áfram framleiðslu á trukkum, en framleiðslan dróst saman úr 4.500 bílum í 2.800 á síðasta ári.

Allir á Benz nema ég

Sagði Kozhin sem dæmi um þá vandræðalegu stöðu sem uppi væri að meira að segja alríkis varðliðaþjónustan, sem sér um að koma háttsettum rússneskum embættismönnum á milli staða noti Mercedes Benz á meðan hans embætti notist einungis við BMW.

Skipti út Moskvich fyrir Audi

Segir blaðið að þrátt fyrir viðleitni yfirvalda um að efla rússneskan bílaiðnað, þá aki bæði Mededev forseti og Vladimir Putin forsætisráðherra um á þýskum eðalvögnum líkt og stærsti hluti hinnar rússnesku pólitísku elítu. Meira að segja Yury Luzhkov einbeittur varðmaður innlends bílaiðnaðar hafi skipt út Moskvich 2001 bifreið sinni í staðin fyrir þýskan Audi.

Stikkorð: Forseti Rússlands  • ZIL