*

Bílar 3. janúar 2021

Forstjórajeppar 2020

Nokkrir af flottustu jeppum ársins sem var að líða úr Áramótariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.

Róbert Róbertsson

Það er ákveðin ímynd að aka um á glæsilegum jeppa með þægindi og lúxus í fyrirrúmi en geta líka ekið út fyrir borgarmörkin í sumarbústaðinn eða veiðina ef því er að skipta. Við tókum saman átta flottustu forstjórajeppana að okkar mati sem allir fást hér á landi.

Land Rover Defender 110 var kynntur með pomp og prakt í sumar. Þetta er stærri gerð nýrrar kynslóðar þessa sögufræga bíls og er með mikla torfærugetu. Jeppinn nýi hefur þegar fengið glimrandi góðar viðtökur og var kosinn Bíll ársins hjá Top Gear á dögunum. Defender 110 er fáanlegur allt að 7 manna og í mismunandi útfærslum.

Tvær vélar eru í boði, annars vegar tveggja lítra 240 hestafla dísilvél með tveimur forþjöppum og hins vegar tvinnbíll 400 hestafla, með þriggja lítra bensínvél og rafmótor. Hægt er að velja úr fjölbreyttu úrvali mismunandi aukabúnaðar og má þar nefna myndavél sem sýnir ökumanni undirlagið framan við framhjólin sem alla jafna er utan sjónsvæðis ökumanns.


Range Rover Vogue
er sannkallaður forstjórajeppi enda þekktur fyrir mikil þægindi og íburð í innanrýminu. Í Range Rover PHEV tengiltvinnbílnum, sem er nýjasta útgáfa lúxusjeppans, er háþróuð Ingenium-bensínvél og rafmótor. Þetta tengiltvinnkerfi skilar bílnum 404 hestöflum og hröðunin 0-100 km/klst. er aðeins 6,4 sekúndur.

Það er ákveðinn klassi yfir Range Rover og það er líka mikil upplifun að aka Range Rover enda mikið lagt í þessa stóru lúxuskerru. Hin einstaka loftpúðafjöðrun Range Rover gerir aksturinn sérlega mjúkan og þægilegan. Þetta er samsetning fágaðrar hönnunar, fínleika og akstursgetu.


Nýr Mercedes-Benz GLS kom fram á sjónarsviðið á árinu. GLS er flaggskip jeppalínu þýska lúxusbílafrmaleiðandans og býður upp á meiri þægindi, fullkomnari tæknibúnað og meiri lúxus en áður.

Í þessum stóra jeppa eru sæti fyrir 7 manns og hægt er að stilla sætin eftir fjölda farþega og farangursmagni. GLS er einnig fáanlegur í 6 sæta lúxusútfærslu. GLS 350d skilar 286 hestöflum en jeppinn er einnig fáanlegur með kraftmeiri dísil- og bensínvélum, sem skila allt að 612 hestöflum.


Audi E-Tron 55
er fyrsti hreini rafsportjeppi þýska lúxusbílaframleiðandans. Audi slær hvergi af þægindunum í þessum bíl og má nefna að hæðarstillanleg loftpúðafjöðrun er staðalbúnaður. E-Tron er einnig búinn Quattro fjórhjóladrifinu frá Audi. Rafmótorinn skilar bílnum 590 hestöflum og hann er einungis 3,5 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið.

Drægnin er rúmlega 400 km á rafmagninu samkvæmt WLTP staðli. E-Tron nær 80% hleðslu á aðeins 20 mínútum. Audi E-Tron er flottur fyrir þá sem vilja rafmagnaðan sportjeppa og umhverfismildari akstur.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.