*

Bílar 13. febrúar 2015

Forstjórajeppinn kveður í september

Margir íslenskir forstjórar og fjárfestar aka um á Landcruiser 200.

Toyota LandCruiser 200 verður ekki seldur eftir 1. september. Ástæðan er sú að Toyota hefur ákveðið að uppfæra ekki vélina í bílnum miðað við Euro 6 mengunarstaðalinn, en bíllinn uppfyllir Euro 5. Bíllinn verður því ekki seldur áfram í Evrópu.Bíllinn kostar frá 19,5 milljónum króna.

Þetta eru eflaust mikil vonbrigði fyrir marga forstjóra og fjárfesta, en jeppinn hefur verið vinsæll í þeim hópi. Meðal forstjóra sem aka um á LandCruiser 200 er bankastjóri eins af stóru viðskiptabönkunum, forstjórar tveggja olíufélaga og tveir forstjórar flugfélaga.

Merkilegt er að að minnsta kosti tveir eigendur Model S frá Tesla eiga jafnframt Toyota LandCruiser, væntanlega fyrir lengri ferðir.

Þetta ættu hins vegar að vera fagnaðarefni fyrir forsvarsmenn annarra bílaumboða því nú verða forstjórarnir að finna sér nýtt heimili. Nema þær fái sér LandCruiser 150 sem verður áfram seldur og kostar frá 9,7 milljónum króna.

Bílar, fylgirit Viðskiptablaðsins, kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.