*

Tölvur & tækni 1. ágúst 2018

Fortnite-þjálfarar fyrir börnin

Foreldrar í Bandaríkjunum eru farnir að ráða þjálfara til að hjálpa börnunum sínum að bæta sig í hinum geysivinsæla tölvuleik Fortnite.

Yfir 125 milljón manns um allan heim spila nú tölvuleikinn Fortnite, og er hann orðinn tekjuhæsti fríspilunarleikur (e. Free-to-play) sögunnar. Frá útgáfu fyrir rétt um ári síðan hafði hann í lok maí skilað Epic Games, sem gefur leikinn út, 129 milljörðum íslenskra króna, og yfir fjórðungur þess kom inn í maí-mánuði einum og sér. Félagið er ekki skráð á markað, en samkvæmt Bloomberg gæti það verið metið á 500-800 milljarða króna í lok árs.

Stór hluti geysilegra vinsælda leiksins er meðal barna allt niður í einnar tölu aldur. Margir foreldrar hafa þó ekki áhyggjur af ofbeldinu eða spiluninni sem slíkri, heldur einungis því að börnin standi sig vel í leiknum.

Wall Street Journal segir frá viðtali við nokkra foreldra barna frá 6 til 12 ára aldurs, sem ekki aðeins leyfa börnunum að spila leikinn, heldur hafa ráðið fyrir þau þjálfara til að hjálpa þeim að bæta sig.

Félagslegri stöðu leiksins og þeirri virðingu sem velgengni í honum fylgir er líkt við íþróttir á árum áður; foreldrar ráða þjálfarana til að tryggja félagslega stöðu barna sinna í skólanum og meðal vina.

„Ég vil að þau skari fram úr í því sem færir þeim gleði.“ segir Euan Robertson um syni sína, 10 og 12 ára, en hann skilyrðir þó aðgang strákanna að þjálfaranum við góðar einkunnir í skólanum.

Þá hafa sumir foreldranna ráðið sér þjálfara sjálfir til að geta spilað með börnunum sínum. „Það væri fínt að hætta að deyja á fyrstu 2 mínútunum.“

Stikkorð: Fortnite