*

Bílar 16. júní 2014

Forza Michael

Viðskiptablaðið rifjar upp feril Michael Schumacher. Enginn hefur unnið F1 oftar og er hann einn efnaðasti íþróttamaður heims.

Þýski ökuþórinn Michael Schumacher er vaknaður úr dái sem hann hefur verið í frá áramótum eftir alvarlegt skíðaslys.

Búið er að flytja Schumacher af háskólasjúkrahúsinu í Grenoble í Frakklandi á stað sem hann fer í endurhæfingu.

Í tilkynningu frá umboðsmanni Schumacher fyrir hönd fjölskyldu hans segir að fjölskyldan vilji þakka starfsmönnum sjúkrahússins í Grenoble og þeim sem sendu honum heillaóskir.

Ekki hefur verið greint nákvæmlega frá ástandi ökuþórsins fyrrverandi.

Viðskiptablaðið rifjaði upp ferill Schumacher í mars í sérblaðinu Eftir vinnu.Við birtum hana hér í heild sinni.

Forza Michael

Michael Schumacher er sigursælasti keppandinn í Formúlu 1 mótaröðinni frá upphafi með sjö sigra. Enginn ökumaður hefur unnið fleiri einstakar keppnir og enginn hefur oftar verið fremstur á ráslínu. Michael hætti endanlega keppni árið 2012.

Pabbastrákurinn

Michael fæddist árið 1969 og ólst upp í smábænum Hurth í nágrenni Kölnar í Þýskalandi. Hann var aðeins fjögurra ára þegar hann ók fyrst go-kart bíl sem pabbi hans, Rolf, smíðaði. Go-kart bíllinn var búinn lítilli vél úr skellinöðru. Rolf var múrari en gerði við go-kart bíla í aukavinnu til að auðvelda syninum að keppa.

Sex ára gamall vann Michael sitt fyrsta mót og var sigursæll í ýmsum mótaröðum þangað til hann hætti í gokart árið 1987. Þá fór hann yfir í stærri bíla eins og Formula Ford. Á sama tíma hætti hann í skóla og vann við viðgerðir á bílum.

Árið 1990 fékk hann samning hjá Mercedes-Benz eftir að hafa náð góðum árangri í Formúlu 3. Fram til 1991 keppti hann í Formúlu 3000 og keppnum eins og Le Mans og World Sportscar Championship.

Fékk tækifæri vegna fangelsisvistar

Í ágúst 1991 úðaði Bertrand Gachot, ökumaður Jordan, táragasi framan í leigubílstjóra í Lundúnum í kjölfar handalögmála eftir minni háttar árekstur. Gachot hlaut tveggja mánaða fangelsisdóm fyrir vikið og þá fékk Michael Schumacher tækifærið á Spa-brautinni í Belgíu síðar í ágúst það ár. Hann náði frábærum árangri í tímatökunni og varð sjöundi á ráspól en varð að hætta á fyrsta hring með bilaða kúplingu.

Lífshættuleg íþrótt

Frá því að F1 mótaröðin var stofnuð árið 1950 hafa 39 ökumenn látist af völdum slysa á keppnishelgi eða á æfingum. Með bættum öryggisbúnaði dró verulega úr slysum upp úr 1980.

Kappaksturinn á Imola árið 1994 hafði mikil áhrif á alla þá sem fylgdust með F1. Óhapp varð í fyrsta hring keppninnar sem olli því að öryggisbíllinn var sendur út á brautina. Hann fór síðan aftur inn eftir sjötta hring. Ayrton Senna var fyrstur og Michael Schumacher annar. Á 307 km hraða missti Senna stjórn á bílnum vegna bilunar í stýrisbúnaði bílsins og endaði á steinvegg. Senna náði aðeins að bremsa í tvær sekúndur og er talinn hafa endað á veggnum á 233 km hraða. Senna lést þremur klukkustundum síðar.

Þessi atburður hafði gríðarleg áhrif á Michael. Miklar endurbætur voru gerðar á öryggisbúnaði Formúlu 1 bílanna í framhaldinu. Enginn ökumaður í F1 hefur slasast lífshættulega frá atburðinum.

Sigurgangan hefst

Michael gerði samning strax eftir Spa kappaksturinn við Benetton-Ford. Árið 1992, á fyrsta heila keppnistímabili sínu, varð hann í þriðja sæti í keppni ökuþóra. Ári síðar varð hann í fjórða sæti. Fyrsti heimsmeistaratitill Michael Schumacher var í höfn árið 1994. Sjálfur taldi hann líklegt fyrir keppnistímabilið að Senna myndi verða heimsmeistari. Hann hélt titlinum árið eftir, á síðasta tímabili sínu á Benetton-bílnum sem þá var kominn með vél frá Renault.

Uppreisn Ferrari

Árið 1996 skrifaði Michael undir samning við Scuderia Ferrari. Þar átti hann sín bestu ár á ferlinum. Framan af var Ferrari-bíllinn ekki nógu endingargóður. Í fyrstu keppninni 1996 varð Michael þriðji í keppni ökuþóra. Á tímabilinu 1997 varð hann annar, en var vísað úr keppni. Það var vegna þess að hann var talinn hafa ekið á Jacques Villeneuve af ásetningi, en Villeneuve varð heimsmeistari þetta ár.

Helsti andstæðingur hans næstu árin var Mika Hakkinen hjá Mclaren-Mercedes sem vann heimsmeistaratitilinn 1998 og 1999. Fyrra árið varð Michael annar en árið 1999 fótbrotnaði hann á miðju tímabili og varð því aðeins fimmti. Árið 2000 fagnaði Michael í fyrsta sinn heimsmeistaratitli með Ferrari og fyrsta titli ítalska bílaframleiðandans frá 1979. Michael sigraði í fimm ár í röð eða fram til 2004.

Hjálmurinn á hilluna

Reglum um dekkjanotkun var breytt fyrir tímabilið 2005-2006 og máttu liðin ekki skipta um dekk í keppni. Þetta kom illa við Ferrari, Michael vann aðeins eitt mót og hann ákvað að hætta keppni eftir tímabilið. Hann var ráðgjafi hjá Ferrari en sneri aftur í Formúlu 1 árið 2010 fyrir nýtt lið Mercedes-Benz, þá 41 árs gamall. Eftir brösugt gengi, en Michael komst aðeins einu sinni á verðlaunapall, ákvað hann að hætta endanlega kappakstri árið 2012.

Stórefnaður

Schumacher er einn efnaðasti íþróttamaður í heimi. The Sunday Times mat eignir hans árið 2012 á 825 milljónir Bandaríkjadala, um 95 milljarða króna.

Árið 2004, á hátindi ferlsins, var talið að tekjur Schumachers hefðu numið 80 milljónum dala, um 9 milljörðum króna. Skattkerfi flestra vestrænna landa taka ekki mið af því að íþróttamenn fái háar fjárhæðir greiddar yfir tiltölulega stuttan tíma. Michael fluttist þess vegna til Sviss árið1992.

Í lífshættu

Michael slasaðist lífshættulega í skíðaslysi í Meribel í frönsku Ölpunum um áramótin. Nú, þremur mánuðum eftir slysið, er ólíklegt að hann muni ná sér að fullu. Hann hefur verið umkringdur konu sinni og tveimur börnum, ættingjum og vinum, frá því að hann slasaðist en læknar hafa lítið viljað gefa upp hverjar batahorfur hans eru.

Michael kvæntist Corinnu árið 1995. Þau eiga tvö börn, dótturina Gina Marie fædda 1997 og soninn Mick fæddan 1999.