*

Menning & listir 3. mars 2015

Föt flækja málin

Myndlistarmaðurinn Rakel McMahon opnaði nýverið sýninguna View of Motivation í Hverfisgallerí.

Kári Finnsson

Myndlistarmaðurinn Rakel McMahon útskrifaðist úr myndlistarbraut Listaháskóla Íslands árið 2008 og hefur komið víða við á sínum listferli síðan þá. Nýverið opnaði hún málverkasýninguna View of Motivation í Hverfisgallerí þar sem fram koma knattspyrnumenn, fjarlægðir af fótboltavellinum og þeim komið fyrir í heimilislegu umhverfi, án klæða. Fyrirmyndirnar eru fengnar af ljósmyndum af leikmönnum en hún segir að verkin hafi verið unnin í miklu samstarfi við karlmennina í lífi hennar – eiginmann, föður, fósturföður og bróður.

„Þeir sendu mér alltaf hlekki á þessar fótboltasíður sem þeir hanga alltaf inni á,“ segir Rakel. „Þannig að ég var farin að verða ein af þeim. Þessar ljósmyndir sem eru teknar af leikjunum eru svo magnaðar. Þær sýna svo mikið af tilfinningum með svo myndrænum hætti. Ég valdi þess vegna myndir úr því og er í raun ekki að breyta neinu.

Þegar ég var komin í það að velja einum of tiltekið sjónarhorn, t.d. mynd sem minnti of mikið á erótík eða árásarhneigð, þá benti Einar maðurinn minn mér á það að fótbolti er svo miklu margslungnari. Fótbolti hefur svo mikið af tilfinningum. Það eru vonbrigði, von, vænting og svo margt annað. Ég var í raun farin að vera of mikill leikstjóri og farin að velja of einhæfar myndir. Þess vegna var svona mikilvægt að hafa fólk mér innan handarsem þekkir, skilur og elskar fótbolta.“

Hefur nektin í verkunum farið fyrir brjóstið á fólki?

„Mér finnst föt flækja málin. Við lesum í föt og þau segja mjög mikið. Fyrst byrjaði ég á að mála búningana en það sagði of mikið sem kemur málinu ekkert við. Ef þú horfir á þetta í listsögulegu samhengi þá hefur nektin alltaf verið til staðar. Fyrir mörg hundruð árum gat fólk horft á nekt í list, líka þegar kirkjan var ráðandi afl í samfélaginu. Núna horfir hins vegar aðeins öðruvísi við. Þetta er líka orðið þannig að þú vilt ekkert endilega sýna fimm ára barni þínu myndband með Beyoncé eða Rihönnu. Miðað við hvað við erum alltaf með nektina í andlitinu, þá erum við af einhverjum ástæðum alltaf viðkvæm fyrir henni í list. Þá þykir þetta einhvern veginn meira sjokkerandi þó það sé ekkert alltaf erótísk merking þar að baki.“

Nánar er spjallað við Rakel í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.