*

Sport & peningar 1. janúar 2016

Fótboltagæðin meiri í Svíþjóð

Sara Björk Gunnarsdóttir hefur átt farsælan feril og í vetur varð hún sænskur meistari með liði sínu, Rosengård í fjórða skiptið.

Alexander Freyr Einarsso

Sara Björk Gunnarsdóttir var tæplega 17 ára gömul þegar hún lék sinn fyrsta landsleik og ekki er langt þangað til hún verður búin að rjúfa 100 leikja múrinn. Sara er uppalin í Haukum en skaust upp á stjörnuhimininn með Breiðabliki áður en hún flutti til Malmö í Svíþjóð. Hún er þó enn mikill Hafnfirðingur í hjartanu og það var vel við hæfi að hitta hana á hinu fræga kaffihúsi Súfistanum í spjall í vetrarkuldanum.

„Ástæðan fyrir því að ég fór til Malmö var fyrst og fremst sú að ég vildi vinna titla. Ég kann mjög vel við mig þarna og ég hef fílað borgina frá því að ég flutti út. Þetta er ekki mjög stór borg, heldur bara þægileg,“ segir Sara Björk. Það kann þó að koma á óvart að aðstæður hjá Rosengård, einu stærsta kvennaknattspyrnufélagi heims, eru í raun ekkert betri heldur en finnast heima á Íslandi að sögn Söru.

„Ég held að umhverfið sé fagmannlegra í stærstu klúbbunum heima. Aðstæðurnar hér í Svíþjóð eru ekki endilega þær bestu þó að hér séu þær bestar hjá okkur og kannski tveimur öðrum félögum. En hér eru engar knattspyrnuhallir eins og á Íslandi, það eru frábærar aðstæður heima og hjá Breiðabliki höfðum við tvær hallir til að æfa í. En fótboltagæðin eru meiri hér.“

Nánar er rætt við Söru í tímaritinu Áramót sem kom út 30. desember síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.