*

Sport & peningar 13. desember 2017

Reiknað með að færri komist að en vilja

Fótboltaskóli Real Madrid er á leiðinni til Íslands.

Á dögunum náðust samningar milli Sigurjóns Digra ehf. og Real Madrid Fundación um að halda í lok mars á næsta ári sérstakan Fótboltaskóla Real Madrid hér á Íslandi. Það var Þór Bæring Ólafsson sem skrifaði undir samninginn á heimavelli Real Madrid, Santiago Bernabéu, á dögunum. Á myndinni með honum er Andrés Muntaner, New Project Manager hjá Real Madrid Fundación, sem skrifaði undir samninginn fyrir hönd Real Madrid Foundación.

Einnig er í undirbúningshópnum fyrir Real Madrid skólann á Íslandi þeir Bragi Hinrik Magnússon, Jón Gunnlaugur Viggóson og Daði Rafnsson. Daði er jafnframt skólastjórinn í skólanum en hann hefur mikla reynslu í þjálfun og er búinn að setja saman frábæran hóp af innlendum þjálfurum sem verður þeim þjálfurum Real Madrid sem koma til landsins til halds og trausts.

„Það er alveg á hreinu að það eru margir krakkar sem vilja kynnast því hvernig það er að æfa eins og Ronaldo og félagar gera hjá Real Madrid. Fótboltaskóli Real Madrid á Íslandi verður fyrir knattspyrnukrakka á aldrinum 9-16 ára og er auðvitað bæði fyrir stráka og stelpur,“segir í tilkynningunni um málið. Fótboltaskóli Real Madrid á Íslandi verður haldin í Fífunni dagana 25. – 29. mars 2018.

Skráning í Fótboltaskóla Real Madrid á Íslandi hefst fimmtudaginn 14. desember kl.11:00. Reiknað er með að færri komist að en vilja og þess vegna eru forráðamenn hvattir til að skrá börnin sín sem fyrst á vefsíðunni www.bolti.is eftir að skráning hefst á morgun. Allir þátttakendur munu fá til eignar Adidas búning, stuttbuxur og fótbolta. Þátttökugjald: 29.900 kr.