*

Menning & listir 2. janúar 2021

Frá hallærisheitum í þjóðarstolt

Íslendingar gáfu lengst af lítið fyrir glæpasögur sem eru orðnar ein þekktasta útflutningsvara landsins.

Árið 2020 var enn eitt veltiárið fyrir íslenska glæpasagnahöfunda. Ragnar Jónasson kom þremur bókum á sama tíma í topp tíu sæta þýska kiljulista Der Spiegel, fyrstur íslenskra rithöfunda og skrifaði undir samning við bandarísku sjónvarpsstöðina CBS um þróun á sjónvarpsþáttaröð byggða á bókinni Dimma. Yrsa Sigurðardóttir var tilnefnd til Petrona-verðlaunanna, sem veitt eru fyrir bestu norrænu glæpasögurnar í Bretlandi. Yrsa gaf út glæpasögu fyrir jólabókaflóðið sextánda árið í röð og Arnaldur Indriðason, konungur íslensku glæpasögunnar, tuttugasta og fjórða árið í röð.

Samanlagt hafa bækur þeirra þriggja selst í meira en 20 milljónum eintaka og verið þýddar á fleiri tugi tungumála. Arnaldur hefur selt yfir fjórtán milljónir bóka, Yrsa yfir fimm milljónir og Ragnar hátt í tvær milljónir bóka. Segja má að sögur um glæpi hér á landi séu að verða sjálfstæð atvinnugrein.

Um og yfir 20 glæpasögur eru gefnar út á hverju ári og tvenn íslensk verðlaun veitt fyrir bestu glæpasögurnar, Blóðdropinn og Svartfuglinn. Þá eru íslenskir glæpaþættir orðnir að útflutningsvöru. Ófærð, Flateyjargátan og Stella Blómkvist hafa birst á sjónvarpsskjáum víða um Evrópu á undanförnum árum. Í ár fylgdi Brot í fótspor þeirra og nutu nokkurra vinsælda erlendis og fengu almennt lof gagnrýnenda, ekki síst í Bretlandi.

Glæpasögur lesnar í felum

Þó að íslenska glæpasagan sé orðin þekkt víða erlendis er ekki ýkja langt síðan Íslendingar gáfu lítið fyrir þá bókmenntagrein. „Ekki er lengra síðan en áratugur að íslenskar glæpasögur þóttu hallærislegri en allt annað,“ sagði í grein eftir bókmenntafræðinginn og nú forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, í Morgunblaðinu árið 2003 í tilefni af því að Arnaldur Indriðason hafði hlotið Glerlykilinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin, annað árið í röð.

Katrín skrifaði bæði BA-og MA-ritgerðir sínar um glæpasögur í kringum síðustu aldamót. Katrín benti á að framan af hefðu glæpasögur passað illa inn í íslenskan veruleika. „Þær höfðu yfir sér yfirbragð óraunveruleika, bókarkápurnar sýndu gjarnan menn með blásið hár í tískufatnaði níunda áratugarins að bregða hnífi á háls kvenna í sömu tísku og Íslendingar fussuðu og sveiuðu yfir því að svona nokkuð gerðist ekki hér, þó að þeir stælust sumir í bækurnar á rigningardögum,“ hélt Katrín áfram í Morgunblaðinu.

„Það hefur átt sér stað mjög merkileg þróun frá því að ég fór að skoða þetta á síðustu öld. Höfundarnir hafa skapað ótrúlegan heim með íslensku glæpasögunni sem er orðin heimsþekkt vörumerki,“ segir Katrín í dag. 

Höfundar skrifuðu undir dulnefni

Katrín hefur eyrnamerkt upphaf glæpasagnabylgjunnar við bókajólin 1997. Þá komu út Synir duftsins, fyrsta glæpasaga Arnaldar Indriðasonar, Morðið í stjórnarráðinu, fyrsta bók hinnar dularfullu Stellu Blómkvist, og jólin eftir það komu Dauðarósir eftir Arnald og Nóttin hefur þúsund augu eftir Árna Þórarinsson. „Ég held að það hafi verið ákveðin eftirspurn eftir því að lesa sögur sem gerðust í íslenskum samtíma og tóku samfélagsleg vandamál til skoðunar,“ segir Katrín.

Á síðustu öld skrifuðu höfundar oftar en ekki glæpasögur undir dulnefni. „Þetta var ekki viðurkennt og þótti ekki fínn pappír. Þegar ég skrifaði mína lokaritgerð var ég reglulega spurð hvenær ég ætlaði að fara að rannsaka eitthvað alvöru efni. Núna er orðið í lagi að skrifa og lesa glæpasögur. Því hefur orðið mjög mikil breyting á því hvernig við fjöllum um afþreyingarmenningu eins og glæpasögur. Hún skiptir máli og hún segir okkur mjög mikið um samfélagsmyndina,“ segir Katrín

Nánar er fjallað um uppgang íslensku glæpasögunnar í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.