*

Heilsa 19. mars 2013

Frábær eftir fertugt slær í gegn

Jóna Ósk Pétursdóttir segir að lítið hafi verið af bókum fyrir eldri konur en nóg af bókum fyrir unglingsstelpur.

Bókin „Frábær eftir fertugt“ eftir Jónu Ósk Pétursdóttur rithöfund er í fyrsta sæti á metsölulista Eymundssonar yfir mest seldu handbækurnar. Salka forlag gefur bókina út. „Frábær eftir fertugt“ fjallar um líkamlega og andlega heilsu kvenna á breytingaskeiði. Umfjöllunarefnin í bókinni eru meðal annars hormónabreytingar, kynlíf, sambönd og félagsleg tabú.

Jóna Ósk segir að svona bók hafi bráðvantað á markaðinn. „Ég fann það þegar ég fór sjálf að leita að svona bók fyrir eldri konur að það var ekki mikið úrval, en það var nóg af bókum fyrir unglingsstelpur,“ segir Jóna Ósk.

Hún segir að bókinni hafi verið afar vel tekið. „Ég hef fengið frábær viðbrögð. Bókin fjallar í raun um hvernig við konur getum haldið áfram að vera frábærar eftir fertugt og svarið er að finna í bókinni,“ segir Jóna Ósk.