*

Menning & listir 11. mars 2014

Frábært verk um ferðalag drengs

Borgarleikhúsið frumsýndi leikritið Furðulegt háttalag hunds um nótt um helgina. Blaðamaður Viðskiptablaðsins sá verkið.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Hún er ótrúlega flott á allan hátt leiksýningin Furðulegt háttalag hunds um nótt, sem frumsýnd var í Borgarleihúsinu á laugardag. Hér gekk flest upp sem átti að gera vel. Leikurinn var góður, tónlistin æði og sagan vægast sagt frábær. Svo flott var þetta allt saman að sjaldan hef ég heyrt jafn mikil fagnaðarlæti í lok nokkurrar sýningar og þeirrar sem hér er fjallað um. 

Leikritið Furðulegt háttalag hunds um nótt er byggð á samnefndri sögu breska rithöfundarins Mark Haddons. Þar segir frá stráknum Christopher sem nótt eina finnur dauðan hund í garðinum heima hjá hjá sér og ákveður að leita morðingjans. Í mjög grófum dráttum flettist ofan af ýmsum sláandi fjölskyldumálum hans við rannsókn málsins. Í raun er óþarfi að kafa djúpt í söguna enda hafa margir lesið bókina. Umgjörðin að leikritinu, sem hér er í leikstjórn Hilmars Jónssonar, er keypt frá Bretlandi og er leikgerðin þaðan. Lítið virðist hafa verið breytt út af bresku uppfærslunni nema hvað sú upphaflega virðist hafa verið sett upp í minna rými. Í Borgarleikhúsinu er stóra sviðið nýtt til fulls og allir þeir galdrar sem hægt er nota nýttir til fulls. Það skilar sér. Leikmynd Finns Arnar Arnarssonar er hreint út sagt með þeim flottari sem ég hef séð í sýningum Borgarleikhússins ef frá er talin ærslasýningin Blam! Þarna fer allt saman, ljós og skuggar með flottri samræmingu leikara.

Ekki er hægt að setja út á leikinn í verkinu. Þorvaldur Davíð Kristjánsson snertir við áhorfendum með hrífandi leik og faðir hans sem Bergur Ingólfsson leikur gerir það líka. Aðrir skila sínu mjög vel. Meira að segja leikarar sem hafa í gegnum tíðina farið í taugarnar á mér gera það ekki þarna. Ég varð eiginlega agndofa.

Í hnotskurn: Furðulegt háttalag hunds um nótt er með flottari verkum á fjölunum nú um stundir. 

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson er blaðamaður á Viðskiptablaðinu.