*

Hitt og þetta 19. janúar 2014

Fræga fólkið

Hvað mundum við gera ef við, venjulega fólkið, fengjum að hitta einhvern frægan í nokkrar mínútur?

Lára Björg Björnsdóttir

Yrði ekki upplagt að segja brandara og vera svaka hress og fyndin(n) en haga sér um leið á mjög elegant máta ef einhver frægur yrði á vegi manns? Nú, en svo kæmi auðvitað að vandræðalegu þögninni þegar sá frægi/fræga horfir með eftirvæntingu í augu okkar og bíður eftir næstu snilld. Hvað gerum við þá? Hvað gerum við krakkar?

Skoðum nokkra fræga og hvað væri hægt að gera skemmtilegt með þeim.

Kim Kardashian: Hér væri bara nóg að stara í brúnu augun hennar í fimm mínútur og fá síðan að koma við hárið.

Bill Gates: Þar sem hann er einn gjafmildasti og ríkasti maður í heimi væri auðvitað hægt að biðja hann um pening.

Alec Baldwin: Spurðu: „Hvaðan kemur þessi reiði, Alec minn?“ Síðan mætti alveg ráðleggja honum aðeins með einkalífið og spyrja hvort hann þurfi ekki bara að byrja með konu sem er líkari Liz Lemon í 30 Rock í staðinn fyrir húmorslausa jógakennarann sem twittaði eftirminnilega um matarinnkaup í miðri jarðarför James Gandolfini.

Chris Christie, ríkisstjóri í New Jersey: Spurðu: „Lokaðir þú brúnni eða vissir þú ekkert?“

Bon Jovi: Hér þarf ekkert að segja. Bara horfa stíft á hann og humma Living on a Prayer. Passa samt að þenja ekki nasirnar, það kemur ekki vel út fagurfræðilega séð.

Woody Allen: Hér dugar bara eitt gott og langt faðmlag þar sem hvíslað er í taugaveiklað eyra hans (sprittaðu þig fyrst þannig að hann sjái til): „Svona svona hjartabarn, ekki vera hræddur við ólæknandi sjúkdóm eða dauðann, hertu upp hugann, Woody minn.“

Nigella: Auðvitað þarf bara að ná djúpu augnsambandi og segja við hana hátt og snjallt: „Djöfulsins pungar sem þetta eru alla daga.“

Stikkorð: Bill Gates  • Woody Allen  • Chris Christie  • Bon Jovi  • Nigella  • Alec Baldwin  • Kim Kardashian