*

Sport & peningar 15. júlí 2018

Frakkar heimsmeistarar í annað sinn

Didier Deschamps varð í dag þriðji maðurinn sem hefur orðið heimsmeistari sem bæði leikmaður og þjálfari.

Ástgeir Ólafsson

Frakkar urðu heimsmeistarar í knattspyrnu karla nú fyrir skömmu eftir 4-2 sigur á Króötum í úrslitaleik mótsins á  Luzhniki leikvangnum í Moskvu. Er þetta í annað sinn sem Frakkar verða heimsmeistarar en það gerðist síðast árið 1998 þegar Frakkar sigruðu Brasilíumenn á heimavelli.

Frakkar tóku forystuna á 18. mínútu þegar Mario Mandzukic skallaði boltan í eigið mark eftir aukaspyrnu Antoine Griezmann. Tíu mínútum seinna jafnaði Ivan Perisic hins vegar leikinn með stórkostlegu skoti en boltinn hafði þó viðkomu í varnarmanni Frakka. Á 37. mínútu var svo dæmd vítaspyrna á Króata eftir að boltinn fór í hendina á Ivan Perisic og úr vítinu skoraði Griezmann. Staðan var því 2-1 í hálfleik fyrir Frakka. 

Næstu tvö mörk Frakka voru hins vegar söguleg. Á 59. mínútu varð Paul Pogba fyrsti leikmaður Manchester United í sögunni til þess að skora mark í úrslitaleik HM og 6 mínútum seinna varð Kylian Mbappe fyrsti táningurinn til að skora í úrslitaleik HM síðan brasilíska goðsögnin Pelé skoraði gegn Svíum árið 1958. Króatar minkuðu svo muninn á 69. mínútu þegar Mario Mandzukic skoraði eftir glórulaus mistök Hugo Lloris markvarðar Frakka mörkin urðu hins vegar ekki fleiri og Frakkar eru heimsmeistarar.

Með sigri Frakka varð Didier Deschamps þriðji maðurinn sem hefur orðið heimsmeistari bæði sem leikmaður og þjálfari en Deschamps var fyrirliði Franska landsliðsins árið 1998. Áður hafði Brasilíumaðurinn Mário Zagallo og Þjóðverjinn Franz Beckenbauer leikið sama leik.