*

Hitt og þetta 6. febrúar 2006

Framkvæmdastjóraskipti hjá Nýsköpunarsjóði

Það hefur farið furðu lítið fyrir skyndilegri uppsögn Gunnars Arnars Gunnarssonar úr starfi framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs en starf hans hefur nú verið auglýst laust til umsóknar. Eftir því sem komist verður næst var Gunnar ekki ánægður með þróun mála hjá félaginu en hann hefur barist við að afla því nýs fjármagns sem reyndar hefur gengið bærilega þar sem eigið fé hefur nánast tvöfaldast eftir sölu Símans. Það bíður þess vegna nýrra manna að ávaxta það þar sem Gunnar ákvað að hætta.

Barist um glæsilegasta fundinn
Fundur Viðskiptaráðs á miðvikudaginn verður að teljast rós í hnappagat þess. Bæði var uppsetning fundarins myndarleg og aðsókn gríðarlega góð og flestar stærstu kanónur íslensks viðskiptalífs mættar. Einnig fólust nokkur tíðindi í ræðum framsögumanna þó pallborðið eftir fundinn hefði mátt vera líflegra. Þar sem nokkur samkeppni er á milli samtaka er ljóst að þeir hjá Samtökum atvinnulífsins mega hafa sig alla við vegna aðalfundar síns sem haldin verður 25. apríl. Það hefur reyndar heyrst af því að á fundinn komi mjög athyglisverðir fyrirlesarar erlendis frá þannig að þeir ætla ekki að deyja ráðalausir hjá Samtökunum!

Hvar endar Icelandair?
Ólafur Ólafsson eigandi Samskipa hefur talað af furðu mikilli kerskni um hugsanleg kaup á flugrekstri Icelandair sem almennt er talið að sé til sölu. Hafa menn gert sér að leik að máta hann við reksturinn og þá gæti hann stillt upp svipuðu félagi og Avion Group. Margir hafa einnig velt því fyrir sér hvort Icelandair gæti fallið inn í rekstur Avion Group en margir telja að slíkir möguleikar hafi minnkað eftir kaup Avion á Star Arlines í gær. Annars hefur því verið fleygt að ýmislegt þurfi að laga í rekstri Icelandair þar sem EBIDTA hagnaður þess hafi verið litlu meiri í fyrra en hagnaður Iceland Express, mörgum sinnum minna félags.

En lítill áhugi hjá ríkisstofnunum
En glíma forráðamenn upplýsingatæknifyrirtækja við það að fá forstjóra ríkisstofnanna til þess að bjóða út tölvuvinnslu sína. Starfsmenn Skýrr hafa sérstaklega lagt sig eftir því og sent tilboð út og suður en finnst þeir uppskera lítið. Telja þeir sig hafa verið að bjóða ríkisstofnunum að spara að minnsta kosti allt að 20% af rekstrarkostnaði sínum við upplýsingatækni (upphæð sem hleypur á milljörðum á ársgrundvelli), þannig að það ætti að vera akkur í því fyrir skattgreiðendur í landinu. Við birtum hér kafla úr grein sem Hreinn Jakobsson, forstjóri Skýrr, skrifaði í blað sem gefið var út vegna UT-dagsins í janúar síðastliðnum. Þar koma fram afar áhugaverðar upplýsingar um umfang UT-rekstrar hjá ríkinu. "Íslenskur upplýsingatækniiðnaður velti í heild um 85 milljörðum króna árið 2004 þegar litið er til fjarskipta, hugbúnaðarþróunar, vélbúnaðarsölu og tengdrar þjónusta. Þessi tala var sjálfsagt nær 100 milljörðum árið 2005. Sérfræðingar telja að í rauninni sé íslenskur UT-iðnaður að velta hátt í 200 milljörðum króna þegar tekið er tillit til þess að meirihluti UT-fólks og UT-starfsemi í landinu er ekki hjá sjálfstæðum fyrirtækjum í greininni, heldur í tölvudeildum innan fyrirtækja og stofnana. Varlega áætlað má telja að liðlega fjórðungur þessarar veltu fari gegnum opinberar stofnanir eða um 50 til 60 milljarðar króna. Það er alltof hátt hlutfall."