*

Bílar 5. janúar 2016

Framtíð Faraday Future opinberuð

Rafbílaframleiðandinn dularfulli frumsýndi sinn fyrsta hugmyndabíl á CES í dag - 1.000 hestafla rafbíl.

Margir hafa velt vöngum yfir fyrirtækinu Faraday Future sem hefur verið sveipað dulúð frá fyrsta degi. Félagið hyggst keppa við Tesla á sviði rafbíla.

Faraday Future kennir sig við Michael Faraday rafeðlisfræðing rétt eins og Tesla Motors kennir sig við Nikola Tesla, og hefur gefið út margs konar auglýsingar og yfirlýsingar án þess þó að sýna tangur né tetur af áætluðum framleiðslubílum sínum.

Í dag birtust áhugasömum þó fyrstu myndirnar af þessari rómuðu rafbifreið Faraday Future - en þó voru myndirnar aðeins af hugmyndabíl þeirra, sem þau kalla FFZERO1. Bíllinn var frumsýndur á Consumer Electronics Show (CES) í Las Vegas í dag.

FFZERO1 er gífurlega nýstárlegur í útliti, en hann hefur verið uppnefndur „Leðurblökubíllinn”. Bíllinn er fágaður og tæknivæddur í ystu æsar. Í miðju stýrinu er hólf til að geyma snjallsíma í, en síminn getur þá tengst við kerfi bifreiðarinnar og brt upplýsingar í stýrið.

Vél hugmyndabílsins er af sérstökum toga - en við hvert hjól er sérstakur rafmagnsmótor, og samtals skila mótorarnir fjórir sér í 1.000 hestöflum fyrir bílinn. Hámarkshraði bílsins er sagður vera 321 kílómetri á klukkustund. 

Meðal annars fylgir hjálmur með bílnum, sem matar bílstjórann á vatni og súrefni, og veitir honum upplýsingar gegnum sýndarbótaveruleikakerfi (e. augmented reality) í gleri hjálmsins. 

Stikkorð: Bílar  • Hugmyndabíll  • Rafbílar  • Tesla  • Elon Musk  • Snjallbílar  • Faraday Future  • CES 2016  • Tölvur & Tækni