*

Tölvur & tækni 20. nóvember 2015

Framtíð sýndarveruleika

Sýndarveruleikatækni stefnir í að verða hundraða milljarða króna iðnaður á næstu fimm árum.

Sýndarveruleikatækni býður þér að setja á þig hjálm sem færir þig til annarrar veraldar. Hjálmurinn tekur yfir skynfæri þín, og þér líður eins og þú sért annarsstaðar en uppi í sófa eða á stofugólfinu heima.

Til að mynda gætirðu látið þig gossa fram af þakbrún skýjakljúfs og komist lífs af, barist við dreka og töframenn í framandi heimum og geimum, eða barist á vígvelli með framtíðarlegan plasmariffil.

Allt þetta getur sýndarveruleikinn fært okkur, eins og íslenski tölvuleikjaframleiðandinn CCP veit manna best - en fyrirtækið, sem þekkt er fyrir geysivinsæla fjölspilunarleikinn EVE Online - var að gefa út sinn fyrsta sýndarveruleikatölvuleik í dag. Leikurinn heitir Gunjack og er fyrstu persónu skotleikur sem gerist í framtíðarveröld EVE Online.

Verður æ vinsælla með árunum

Fyrirtæki að nafni Jupiter Research hefur auga með sýndarmarkaðnum, og áætlar að á næsta ári muni 3 milljónir sýndarveruleikatækja seljast. Um árið 2020 mun þessi tala hafa hækkað í 20 milljónir tækja, sem skilar sölu upp á einhverja 4 milljarða bandaríkjadala eða 520 milljarða íslenskra króna.

Raftækjaframleiðandinn Samsung, einn helsti keppinautur Apple á snjallsímamarkaði, gaf nýverið út sýndarveruleikatæki sem ber nafnið 'Gear VR'. Tölvuleikur CCP, Gunjack, er einmitt spilaður á slíkt tæki. Nýlega fjárfestu NEA og Novator einhverjum 4 milljörðum króna í CCP til að fyrirtækið gæti haldið áfram að þróa sýndarveruleikatækni.

Gear VR er verðmerkt á rétt rúma 100 bandaríkjadali eða svo, og ætti því að verða vinsælt meðal forvitinna neytenda, þar eð tækið er ekki of dýrt. Varan er hönnuð og framleidd í samstarfi við Oculus - stærsta fyrirtækið á sýndarmarkaðnum. Facebook keypti Oculus á síðasta ári fyrir litla tvo milljarða bandaríkjadala, eða um 260 milljarða íslenskra króna.

Nýstárlegt listform

Facebook er nú þegar farið að notfæra sér möguleikana sem fylgja sýndargleraugum og hjálmum, en nýlega tilkynnti forstjóri fyrirtækisins, Mark Zuckerberg, um að nú gætu notendur Facebook horft á 360 gráðu myndbönd á vefsíðunni. Með notkun sýndarveruleikagleraugna myndi áhorfandanum líða eins og hann væri staddur á upptökustaðnum sjálfum.

Þessi fyrstu persónu myndbönd, ef svo má að orði komast, eru sérstök og raunar nánast nýtt listform. Þar eð áhorfandinn getur stjórnað hvert sjónarhorninu er beint verður hlutverk leikstjóra um leið talsvert umfangsmeira og flóknara.

Sögulega hefur það verið hans starf að beina sjónum áhorfandans nákvæmlega þangað sem þörf er á. Ef til vill mun hlutverk leikstjóra þróast í takt við þessa tækniþróun þar til það verður líkara hlutverki tölvuleikjahönnuðar, sem þarf að ákvarða og áætla heilt þrívítt rými í stað eins sjónarhorns. 

Stikkorð: Facebook  • Samsung  • CCP  • Sýndarveruleiki