*

Menning & listir 12. mars 2017

Framtíð tónlistarútgáfu undir

Sölvi Blöndal telur framtíðina liggja í streyminu og vill taka þátt í því að skapa nýtt rekstrarmódel fyrir tónlistarútgáfu.

Pétur Gunnarsson

Fyrirtækið Alda Music var stofnað á seinni hluta síðasta árs og komu tónlistarmennirnir Sölvi Blöndal og Ólafur Arnalds að stofnun þess. Fyrirtækið keypti tónlistarútgáfu Senu á síðasta ári og í samtali við Viðskiptablaðið deilir Sölvi Blöndal, stjórnarformaður fyrirtækisins, hugmyndum sínum um framtíð tónlistarútgáfu.

Sölvi segir að tónlistarútgáfa standi á krossgötum um þessar mundir. „Það hefur verið almenn skoðun seinustu árin að það sé ekki hægt að hafa neinar almennilegar tekjur af sölu tónlistar, að það sé ekki hægt að græða á tónlistarútgáfu. Það varð niðurstaðan eftir að ólöglega niðurhalið ruddi sér rúms. Menn voru bara búnir að gefast upp á tónlistarbransanum og sögðu jafnvel að þetta væri einhver vídeóleiga. Svoleiðis tal lýsir skilningsleysi á möguleikunum sem fyrir hendi eru. En sumir sjá ekki skóginn fyrir trjánum,“ segir Sölvi og hlær. Með tilkomu streymisins mun þetta breytast, enda jukust tekjur tónlistarbransans á heimsvísu frá fyrra ári í fyrsta skipti árið 2015 í meira en tíu ár.

„Það má kannski segja að tónlist teljist til skemmtiefnis sem aldrei hefur verið notað jafn mikið og núna. Reynslan sýnir að til langs tíma liggur virðið í að eiga og sýsla með efnið fremur en í smásölunni. Vandamálið var að neytendur voru ekki að greiða fyrir efnið.

Streymið hefur breytt öllu, og þar hefur Spotify verið í fararbroddi. Vissulega eru áskriftargjöldin lág, of lág, en tilkoma Spotify er einhvers konar ljós í hinum endanum á göngunum. Það er auðvitað líklegt að þegar fram líða stundir muni geisladiskurinn í síauknum mæli glata vægi sínu, jafnvel innan fimm til sjö ára. En „physical“ útgáfa, hún hættir aldrei alveg. Vínyllinn er reyndar að aukast. Ég kaupi til að mynda stundum vínylplötur annað veifið en spila þær ekki endilega. Fólk vill handleika hluti sem það kaupir, Það á líka við um tónlist,“ bætir hann við.

Spotify á að vera á öllum heimilum 

Til að renna stoðum undir framtíðarsýn sína bendir Sölvi á það að um þessar mundir greiði 56 þúsund Íslendingar fyrir áskrift að Spotify mánaðarlega. En sé litið til Norðurlandanna er notkunin miklu meiri, „Í Noregi er um helmingur Norðmanna með áskrift að Spotify. Við eigum ekki að sætta okkur við neitt annað en að það sé Spotify áskrift á sirka hverju heimili á Íslandi. Með því yrði stigið stórt skref í að búa til sjálfbært viðskiptalíkan fyrir tónlistarbransann. Við erum rétt að byrja að sjá hvaða möguleikar liggja í streyminu. Á næstu fimm árum munu verða miklar breytingar á þessum bransa, einkum með hliðsjón af aukinni notkun streymis,“ segir Sölvi.

Spurður að því hvernig reksturinn á Alda Music fari af stað bendir Sölvi á að hann og Ólafur Arnalds hafi nýverið tekið við fyrirtækinu. „Við tókum við því seint á síðasta ári og þetta er ekki beint einfaldur rekstur. Alda er auðvitað langstærsta tónlistarútgáfa landsins með ca. 80% af íslenskri tónlist í sinni umsýslu. Um er að ræða nánast alla dægurtónlistarsögu Íslands. Það er þess vegna í mörg horn að líta. Aðalvinnan síðan við tókum við fyrirtækinu hefur falist í að styrkja grunninn, vinna með starfsfólkinu, tala við rétthafa og hlúa að innra starfi. Núna erum við farnir að horfa á það það sem við viljum gefa út af nýjum listamönnum“.

Vil leggja mitt af mörkum 

Sölvi hefur, eins og flestir vita, verið þekkt stærð í íslensku tónlistarflórunni ásamt því að hafa verið virkur þátttakandi í íslensku viðskiptalífi. Spurður að því hvort hann hafi brúað ákveðið bil með stofnun Alda Music játast hann við því. „Jú, kannski. Við þekkjum það að sitja hinum megin við borðið.

En auðvitað er þetta er líka „passion project“ og skemmtilegt sem slíkt. Að sama skapi þá er það grundvallað á prinsippi sem ég hef alltaf haft. Ætli maður sér að gefa út tónlist, þá skiptir öllu máli að bæði útgefandi og litamaður standi heils hugar að baki markaðssetningu hvernig sem á því er síðan haldið. Að ætla sér að treysta eingöngu á styrki er döpur framtíðarsýn. Framtíð tónlistarbransans er í húfi. Og við viljum leggja okkar af mörkum. Við erum kannski ekki að setja markið lágt, “ tekur Sölvi fram að lokum og hlær.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.