
Bíllinn var kynntur til sögunnar við opnun nýrrar rannsóknar- og þróunarmiðstöðvar í Peking. Bíllinn er tímamótaverk í tækni og hönnun Mercedes-Benz og ljóst að hér er á feðrinni bíll sem við munum jafnvel sjá verða að veruleika í nánustu framtíð. Sérstakt silfur raflakk er á bílnum sem umbreytir yfirbyggingunni nokkurn veginn í eina allsherjar sólorkurafhlöðu sem sér rafmagnshluta tvinnaflrásar þessa fjórhjóladrifsbíls fyrir orku.
Framgrill hugmyndabílsins G-Code er innrammað af LED-aðalljósum og sömu ljósatækni er beitt í ljósaræmu á afturendanum sem teygir sig þvert yfir bílinn. Heilmyndað framgrillið gefur til kynna hvort bílnum sé ekið á sameiginlegri aflrásinni eða á rafmagninu. Framtíðarhugsunin er greinilega til staðar þarna í þessum magnaða hugmyndabíl. ,,Þetta er umfangsmesta bílþróun sem fyrirtækið hefur nokkru sinni ráðist í," segir Thomas Weber, yfirmaður rannsókna- og þróunar hjá Mercedes-Benz.
Það eru sannarlega spennandi tímar framundan hjá Mercedes-Benz en þýski lúxusbílaframleiðandinn boðar tólf ný módel fram til ársins 2020.