*

Bílar 7. september 2017

Framtíðarbíllinn frá Jaguar

Jaguar hugsar vel fram í tímann ef marka má nýjasta hugmyndabílinn frá breska bílaframleiðandanum.

Jaguar kynnti þennan mjög svo framúrstefnulega hugmyndabíl á Tech Fest í London á dögunum. Bíllinn kallast Jaguar Future-Type og ber nafn með rentu því Jaguar hyggst setja hann á markað árið 2040.

Hönnunin á bílnum er kapítuli út af fyrir sig og mjög framúrstefnuleg eins og sjá má. Jaguar hefur lýst því yfir að með þessari hönnun verði framtíðarbílarnir þægilegri í borgarumferð hvað varðar að leggja í stæði og komast inn í þrögnar götur stórborga. Bíllinn er þriggja sæta og á að vera sjálfakandi þótt sá sem situr í ökumannssætinu geti tekið í stýrið hvenær sem hann vill og stýrt bílnum.

Jaguar er með ýmsar pælingar varðandi bílinn sem er langt á undan sinni samtíð eins og útlitið ber með sér. Bíllinn mun verða gríðarlega tæknivæddur og auðvelt að fylgjast með öllum samfélagsmiðlum í bílnum. Stýrið sem er afar sérstakt í hönnun verður miðjupunkturinn með gríðarlegu magni af upplýsingum, ekki bara um bílinn og aksturinn heldur getur eigandinn tekið stýrið með sér heim og í vinnuna. Það verður einskonar snjalltæki með ýmsum upplýsingum til daglegra þarfa. Það verður spennandi að fylgjast með þróuninni á þessum Future-Type bíl frá Jaguar.

Stikkorð: framtíðin  • Jagúar