*

Bílar 26. janúar 2021

Framúrstefnulegur Cupra Tavascan

Nýr hugmyndabíll frá spænska bílaframleiðandanum Seat er á leið í framleiðslu. Volkswagen hannaði innanrýmið.

Róbert Róbertsson

Þetta er ekki nýi Batman bíllinn heldur hugmyndabíll frá spænska bílaframleiðandanum Seat sem nefnist Cupra Tavascan og er á leið í framleiðslu. Bíllinn verður með rafmóturum bæði að framan og aftan sem skila honum 302 hestöflum. Bíllinn verður með fjóhjóladrifi og með um 450 km drægni samkvæmt WLTP staðli að sögn spænska bílaframleiðandans.

Bíllinn verður með ágætis afl því hröðun úr kyrrstöðu í hundraðið er 6,5 sekúndur. Hönnunin er mjög sportleg og framúrstefnuleg eins og sjá má og línurnar hárbeittar eins og Gilette rakvélablað.

Innanrýmið verður mjög nútímalegt þar sem hátæknivæddur 13 tommu skjár og mikið af leðri og þægindum á að fara vel með ökumann og farþega. Hönnunin er í höndum Volkswagen samstæðunnar þannig að um samstarfsverkefni er að ræða á milli Seat og þýska bílaframleiðandans hvað það varðar.

Það hlýtur að hafa verið gaman hjá hönnunarteyminu sem kom að bílnum og framandi hugmyndir hafa augljóslega fengið að njóta sín. Það er alltaf gaman að fylgjast með hugmyndabílum verða að veruleika. Nú verður bara spennandi að vita hvort hönnunin verður nákvæmlega þessi þegar Cupra Tavascan kemur af færibandinu í verksmiðjum Seat.

Stikkorð: Cupra Tavascan  • Seat