*

Bílar 31. maí 2021

Framúrstefnulegur frá Opel

Opel Mokka er nú orðinn hreinn rafbíll með 320 km drægni og framúrstefnilega hönnun.

Róbert Róbertsson

Ný kynslóð Opel Mokka var frumsýnd hjá Bílabúð Benna um helgina. Þetta er önnur kynslóð Mokka og er mjög breytt í útliti bæði að innan og utan.

Opel Mokka er nú orðinn hreinn rafbíll með 50 kWst rafhlöðu sem gefur honum 320 km drægni. Rafmótorinn skilar 134 hestöflum og hann er með ágætasta afl. Opel Mokka er framúrstefnulegur í útliti og vekur athygli fyrir vikið. Útlisbreytingarnar bera með sér nýbreytni í hönnun hjá Opel í Russelsheim sem skilar sér nokkuð vel. Að innan fær bíllinn nýtt Pure Panel mælaborð með tveimur upplýsingaskjám. Innanrýmið er flott hannað og nútímalegt.

Undirvagn Mokka er CMP undirvagninn frá PSA sem er einnig undir Peugeot 2008. Fyrir vikið er bíllinn 120 kílóum léttari en áður. Bíllinn er ágætlega rúmgóður fyrir fólk og farangur en 350 lítra farangursrými er í bílnum eins og áður. Í boði verða einnig þriggja strokka bensínvélar og fjögurra strokka dísilvélar en bíllinn er frumsýndur hér á landi í rafútgáfu sinni.