*

Bílar 13. maí 2019

Fríður förunautur

Nýr Range Rover Evoque kemur á markað á næstunni og er þetta önnur kynslóð þessa breska sportjeppa.

Evoque er minnsti sportjeppinn í Range Rover línunni og fær nýja kynslóðin óneitanlega talsvert meiri svip frá miðstóra bróðurnum Velar, m.a. ný og flott handföng sem hverfa inn í hliðina þegar hann tekur af stað. Handföngin renna svo aftur út þegar bíllinn er stopp. Útlitsbreytingarnar eru talsverðar m.a. á fram- og afturendanum þar sem ný ljós og breytt grill gefa bílnum sterkan svip. Mesta breytingin er líklega að aftanverðu þar sem ný og flott afturljósin gera mikið fyrir bílinn. Hann líkist aðeins meira Velar eins og áður segir og er ekki leiðum að líkjast. Ekki það að Evoque hafi ekki verið flottur bíll áður, langt í frá því hann hefur raunar unnið fullt af hönnunarverðlaunum og þykir forverinn sérlega fallegur bíll.

En breytingarnar eru góðar og gefa Evoque enn flottara útlit en áður. Hliðarsvipurinn og byggingarlag bílsins er hins vegar sama og áður og hefur án efa hönnuðum Range Rover fundist óþarfi að breyta því sem er vel heppnað. Það er ekki hægt að segja annað en að Evoque sé fríður förunautur.

Digital myndavél og snertitakkar

Lág þaklínan að aftan og litlir afturgluggar eru því áfram í nýju kynslóðinni sem er bara hið besta mál enda vel heppnuð hönnun í anda Coupé. Helsti gallinn við bílinn er einmitt litlir gluggar að aftan og þá sérstaklega bakglugginn sem gefur mjög takmarkað útsýni. Þá þarf ökumaður að reiða sig mjög á bakkmyndavélina. Bíllinn er reyndar í boði með digital myndavél í aðalspeglinum sem sýnir allt sem er fyrir aftan bílinn. Reynsluakstursbíllinn var með slíkri digital myndavél sem er mjög flottur búnaður og gefur skýra og nákvæma mynd af öllu sem er að gerast fyrir aftan bílinn.

Mesta breytingin á nýjum Evoque er samt sem áður í innanrýminu. Svo til allir takkar sem eru í forveranum hverfa og í stað þeirra má stjórna öllum stjórntækjum með aðgerðarskjá og snertitökkum. Kerfið sér um alla afþreyingu eins og Android og Apple og það sem skiptir máli við sjálfan aksturinn. In Control Dual Touch Pro kerfið er með því besta sem ég hef prófað í bíl. Þá er glæný gírskipting. Út er farin hringlaga gírskipting sem lyftist upp þegar bíllinn er settur í gang og svo snýr maður hringnum í mismunandi gíra. Þessi gírskipting hefur einkennt Range Rover, Land Rover og Jaguar bíla undanfarin ár. Í staðinn kemur ný gírskipting sem er mjög lipur og þægileg og líkist mjög þeirri sem er í nýjum kynslóðum BMW bíla. 

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Land  • Rover