*

Menning & listir 24. janúar 2020

Frönsk veisla

Fjöldi kvikmynda verður í boði á Frönsku kvikmyndahátíðinni sem haldin er í Bíó Paradís.

Franska kvikmyndahátíðin er nú haldin í 20. skiptið. Hátíðin, sem er haldin í Bíó Paradís, hefst í dag og stendur til 2. febrúar. Frakkland er í 5. sæti yfir þær þjóðir sem framleiða flestar kvikmyndir, um það bil 300 á ári. Hér er listi yfir nokkrar af þeim myndum sem sýndar verða á hátíðinni:

Portrait of a Lady on Fire

Myndin keppti um Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni Cannes 2019 þar sem hún hreppti Queer Palm verðlaunin en um er að ræða fyrstu kvikmyndina sem leikstýrð er af konu sem hlýtur þau verðlaun. Hin unga listakona Marianne er ráðin í verkefni að mála portrett af Héloïse, tilvonandi brúði ríkrar fjölskyldu, sem hefur ítrekað neitað að sitja fyrir því hún neitar að giftast manninum sem til stendur að binda hana við. Marianne dulbýr sig sem vinnukonu til að ávinna sér traust hennar en ekki líður á löngu þar til hún verður ástfangin af fyrirsætunni.

J´accuse 

Ein umdeildasta mynd ársins í leikstjórn Romans Polanski Myndin fjallar um kafteininn Alfred Dreyfus sem er ranglega dæmdur fyrir landráð og er dæmdur í lífstíðarfangelsi á eyjunni Djöflaeyju.

Le Daim

Gamanmynd sem fjallar um mann sem er heltekinn af rússkinsjakkanum sínum og endar á því að eyða ævisparnaðnum sínum og að lokum leiðist út í glæpi til þess að bjarga málunum.

La Belle Époque

Rómantísk gamanmynd sem sem sló í gegn á kvikmyndahátíðinni Cannes. Líf Daniels breytist þegar honum býðst að ferðast aftur í tímann. Hann ákveður því að endurlifa fortíð sína í þeim tilgangi að bjarga hjónabandinu.

Dilili í París

Myndin var valin besta teiknimyndin á César verðlaunahátíðinni árið 2019. Á fyrstu árum 20. aldar í París leiðir litla stelpan Dilili, ásamt ungum sendli, rannsókn á dularfullu brotthvarfi ungra stelpna. Hún nýtur aðstoðar stórkostlegs fólks sem verður á vegi hennar.

Amélie

Klassísk perla í franskri kvikmyndagerð en hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2001. Amélie lifir í eigin heimi ástar og fegurðar. Hún flytur í miðhluta Parísarborgar og gerist gengilbeina. Dag nokkurn ákveður hún að helga sig því að gleðja fólkið í kringum sig, en þegar hún kynnist ástinni ákveður hún að láta drauma sína rætast.

Matthias & Maxime

Vinátta tveggja ungra manna er undir þegar þeir leika saman í stuttmynd þar sem þeir eiga að kyssast. Úr verður stórkostleg saga löngunar en kvikmyndin skartar sjálfum Xavier Dolan í öðru aðalhlutverkinu, en hann skrifar og leikstýrir myndinni einnig sem frumsýnd var á Kvikmyndahátíðinni Cannes 2019.

Deux Moi

Rómantísk og dramatísk gamanmynd sem slegið hefur í gegn í Frakklandi. Myndin fjallar um ungt fólk í París, tvær sálir sem ná kannski að lokum saman. Þarf maður ekki að elska sjálfan sig, áður en maður getur elskað einhvern annan?

Wine Calling

Franskir vínframleiðendum eru rúmlega 3.000 og eru taldir vera leiðandi í framleiðsluháttum ásamt því að hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Minna en 3 prósent vinna vínið með lífrænum hætti eða náttúrulegum aðferðum. Stórkostleg heimildamynd en að sýningu lokinni verður boðið upp á vínsmökkun á lífrænum vínum.

Nánar upplýsingar um hátíðina má finna hér.