*

Menning & listir 19. október 2020

Frumkvöðlar stofna stafrænt gallerí

Ellert Lárusson og Pétur Jónsson koma á fót sölusvæði og markaðstorgi á netinu fyrir íslenska myndlist.

Tveir ungir frumkvöðlar hafa stofnað sölusvæði og markaðstorg fyrir íslenska myndlist, einskonar stafrænt gallerí undir nafninu Apollo Art. Það eru þeir Pétur Jónsson og Ellert Lárusson sem standa að Apollo Art.

„Við sáum að það væri vöntun á vettvangi þar sem listunnendur geta á einum stað skoðað úrval margra listamanna og keypt beint af þeim sem þeim lýst best á. Við erum eiginlega að færa myndlistaheiminn inn í nútímann hvað sölu og markaðssetningu varðar,” segir Ellert Lárusson, framkvæmdastjóri Apollo Art, sem opnaði þann 1. október síðastliðinn.

„Það getur verið dýrt að selja í gegnum gallerí, þar þurfa listaverkin að vera til á staðnum og tenging þess sem kaupir og listamannsins er lítil. Á Apollo art velur fólk verkin á sínum tíma á vefnum og finnur það sem það vill kaupa.

Listamaðurinn er með öll verk hjá sér og sér sjálfur um að afhenda kaupandanum verkið. Þetta hefur strax mælst mjög vel fyrir og eru um 50 listamenn nú þegar byrjaðir að selja í gegnum Apollo art og salan fór strax í gang á fyrsta degi.“

Á vettvanginum eru viðskiptin beint á milli listkaupandans og listamannsins en ekki við t.d. gallerí. Með þessu fær listamaðurinn mun meira út úr viðskiptunum ásamt því að aukin þægindi skapast fyrir þá sem vilja kaupa samtímalist.

Ætlað að auka þægindi fyrir kaupendur af list

Apollo Art auðveldar valið á rétta verkinu bæði með flokkunarmöguleikum í verði, stærð, listamönnum, efnisvali eða listastefnu. Hver listamaður fær sitt svæði og getur deilt því á sínum samfélagsmiðlum. Þar verður til þeirra eigin sölusíða.

„Við sjáum alfarið um öll markaðs og vefsíðumál svo listamaðurinn getur einbeitt sér meira að listinni. Við bjóðum kaupandanum upp á fjölbreytta greiðslumöguleika og hægt er að greiða með kreditkortum, debetkortum, Netgíró, Aur eða Pei til þess að dreifa eða fresta greiðslum,” segir Pétur Jónsson, annar stofnenda Apollo Art.

„Við erum líka búnir að búa til allskonar flokkunarmöguleika fyrir fólk sem er að leita að einhverju ákveðnu einnig sjáum við mikið notað að fólk vill deila með öðrum á samfélagsmiðlum, t.d. ef hópur er að velja saman mynd til að gefa. Til viðbótar erum við að setja í loftið á næstu dögum nýjan möguleika þar sem fólk getur fengið verk í heimamátun í samvinnu við listamanninn.“