*

Tölvur & tækni 19. september 2017

Frumkvöðull ársins í greiðsluþjónustu

Tímaritið European CEO hefur útnefnt Jóhannes Inga Kolbeinsson, framkvæmdastjóra KORTA, frumkvöðul ársins í Vestur-Evrópu á sviði greiðsluþjónustu.

Titilinn hlýtur Jóhannes fyrir framsýni og stefnufestu við að leiða KORTA í gegnum hraðan vöxt og þróttmikla innreið á alþjóðamarkað síðustu misseri.

European CEO útnefnir á hverju ári þá framkvæmdastjóra sem hafa þótt skara fram úr á sínu sviði í Evrópu og mun valið verða formlega tilkynnt í vetrarhefti blaðsins. Við valið lítur dómnefnd tímaritsins til margvíslegra þátta og má þar t.a.m. nefna vöxt og rekstur fyrirtækja, stjórnarhætti, markaðssetningu og mannauðsmál.

Vöxtur KORTA hefur verið hraður síðustu ár og var fyrirtækið sem dæmi í 106. sæti hjá viðskiptatímaritinu Inc. árið 2016 yfir þau evrópsku fyrirtæki sem höfðu vaxið hraðast árin á undan. Síðan þá hefur fyrirtækið tvöfaldað kortaveltu sína milli ára og fjölgað starfsfólki um meira en helming, en nú starfa tæplega 60 hjá fyrirtækinu.

Hröð innreið KORTA á alþjóðlegan greiðsluþjónustumarkað ræður mestu um vöxt félagsins, en meðal nýrra alþjóðlegra viðskiptavina fyrirtækisins eru Collector Bank í Svíþjóð og enska flugfélagið Monarch Air. KORTA hefur samhliða aukinni markaðssókn erlendis stækkað viðskiptavinahóp sinn á Íslandi og eflt þjónustu hér á landi.

„Það er vissulega heiður fyrir mig að fá þessa útnefningu European CEO en ég vil fyrst og fremst líta á þetta sem viðurkenningu á því starfi sem við öll hjá KORTA höfum unnið á síðustu árum. Okkur hefur tekist að nýta þau tækifæri sem nú bjóðast fyrir framsækin og tæknisinnuð greiðsluþjónustufyrirtæki og það hefur verið ánægjulegt að sjá hvernig þær lausnir sem við höfum þróað fyrir íslenskan markað nýtast nú til að hjálpa stórum alþjóðlegum fyrirtækjum að bæta þjónustu og auka hagræði. Þessi útnefning er góð hvatning fyrir okkur að halda áfram á sömu braut,“ segir Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri KORTA.