*

Bílar 28. febrúar 2020

Frumsýna nýjasta Kia Ceed bílinn

Nýjasti meðlimurinn í Kia Ceed fjölskyldunni, Sportwagon í plug-in Hybrid útgáfu, verður frumsýndur á morgun.

Róbert Róbertsson

Nýr Kia Ceed Sportswagon í Plug-in Hybrid útfærslu veruður frumsýndur í Kia húsinu að Krókhálsi nk. laugardag kl 12-16. Kia Ceed Sportswagon PHEV er nýjasti meðlimurinn í Ceed fjölskyldunni sem hefur fengið mörg eftirsótt hönnunarverðlaun. Hinir meðlimirnir eru XCeed, ProCeed, Ceed og Ceed SW.

Kia Ceed Sportswagon PHEV er með allt að 60 km rafdrægni og umhverfismilda 1,6 lítra bensínvél og eyðir hann aðeins frá 1,28l/100 km. Tengiltvinnvélin skilar bílnum samtals 141 hestafli og togið er 256 Nm. Bíllinn er með sex þrepa sjálfskiptingu sem er mjúk og þægileg og eykur enn frekar á góða aksturseiginleika bílsins.

Nýr Kia Ceed Sportswagon PHEV er sportlegur ásýndum. Tveggja þátta grill, LED framljós með "ísmola" LED dagljósabúnaði og þokuljósum gefa framendanum sterkan svip. Sportleg, lág hliðarlínan er með krómumgjörð um glugga og rennilega þaklínu. Innanrýmið er ríkulegt þar sem nútímaleg tækni er fullkomlega aðlöguð að 8 eða 10,25 tommu snertiskjánum sem býður upp á tengingar við aksturskerfi bílsins sem og afþreyingarkerfi.

Bíllinn er mjög rúmgóður og farangursrýmið er alls 437 lítrar. Verðið á bílnum er frá 4.290.777 kr. Kia Ceed Sportswagon PHEV er með 7 ára ábyrgð eins og allir nýir bílar frá suður-kóreska bílaframleiðandanum. Kia er með breiða línu Plug-in Hybrid bíla og það mun aukast enn frekar með komu Kia Ceed Sportswagon PHEV. Þá er hinn nýi Kia XCeed í Plug-in Hybrid útfærslu einnig væntanlegur til landsins á næstunni en forsala á bílnum hefur staðið yfir síðustu vikur hjá bílaumboðinu Öskju.

Stikkorð: Kia Ceed  • Kia húsið  • plug-in Hybrid