*

Bílar 5. apríl 2019

Frumsýna Volvo og Citroën

Brimborg frumsýnir á laugardag tvo bíla, Volvo V60 Cross Country og Citroën C5 Aircross sem hér sést.

Tveir nýir bílar verða frumsýndir hér á landi á morgun, laugardag kl. 12-16 og báðir hjá Brimborg. Um er að ræða Volvo V60 Cross Country og Citroën C5 Aircross.

Franski bílaframleiðandinn Citroën fagnar hundrað ára afmæli á þessu ári og kemur nú fram með C5 Aircross. Hann er með kraftmikilli vél, 8 gíra sjálfskiptingu og Grip Control spólvörn og 23 sentimetra veghæð. Billinn er fáanlegur með nokkrum gerðum véla sem allar standast nýjasta mengunarstaðalinn Euro 6.2.

Í boði eru tvær bensínvélar, PureTech 180 hestafla með 8 þrepa sjálfskiptingu og PureTech 130 hestöfl með 6 gíra beinskiptingu. Tvær dísilvélar eru í boði með 8 þrepa sjálfskiptingunni, annars vegar 130 hestöfl og hins vegar 180 hestöfl. Bíllinn með minni vélinni fæst einnig með beinskiptingu.

Fjölhæfur fjölskyldubíll

Volvo V60 Cross Country er fjölhæfur fjölskyldubíll með góða aksturseiginleika og nýjustu tækni. Bíllinn er fjórhjóladrifinn og sterkur undirvagn með veghæð upp á 21 sentimetra. Staðalbúnaður V60 er nokkuð mikill og þá sérstaklega þegar það kemur að ökumannsaðstoð og öryggi. Hann er auk þess með eitt stærsta farangursrýmið í þessum stærðarflokki en hann rúmar 529 lítra upp að toppi sætisbaka.

Volvo V60 er bíll ársins á Íslandi 2019 og er einn af þremur bílum í úrslitum um valið á Heimsbíl ársins 2019 en valið fer fram 17. apríl.

Stikkorð: Brimborg  • Volvo  • Citroën