*

Menning & listir 21. nóvember 2020

FT tilnefnir Einar fyrir bók ársins

Financial Times hefur tilnefnt bókina Stormfugla eftir Einar Kárason sem eina af bókum ársins í flokknum þýdd skáldverk.

Financial Times hefur tilnefnt bókina Stormfugla eftir Einar Kárason í þýðingu Quentin Bates sem eina af bókum ársins í flokknum þýdd skáldverk. Bókin kom fyrst út á íslensku árið 2018.

Alls eru sex bækur tilnefndar í flokknum. Þar á meðal er bókin Lygalíf fullorðinna, sem er fyrsta skáldsaga Elena Ferrante frá Napólí-fjórleiknum sem naut mikilla vinsælda víða um heim.

Í umsögn Financial Times um Stormfugla segir að sagan sé lauslega byggð á sannri sögu um sjómenn á íslenskum togara og baráttu þeirra við mikið óveður árið 1959. Í bókinni takist að lýsa mikilfenglegu hafinu og miskunnarlausum náttúruöflunum sem og að kafa ofan í innra sálarlíf sjómannanna um borð.

Egill Helgason, fjölmiðlamaður og umsjónarmaður Kiljunnar er meðal þeirra sem hafa samglaðst Einari á samfélagsmiðlum og segir að sér hafi þótt bókin vanmetin og bendir á að hún hafi ekki hlotið tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Einar vinnur nú að bók um athafnamanninn Jón Ásgeir Jóhannesson sem mun bera titilinn Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar eins og Viðskiptablaðið greindi frá í vikunni. Stefnt var að útgáfu bókarinnar fyrir jól en henni hefur verið frestað.