*

Hitt og þetta 2. september 2013

Fugl handtekinn í Egyptalandi

Í þeim óróa sem ríkir í Egyptalandi eiga jafnvel fuglar á hættu að verða handteknir.

Storkur var handtekinn 450 kílómetrum suður af Kaíró á föstudaginn. Íbúi í Qena Governorate tók eftir fuglinum nærri heimili sínu og sá að einhvers konar rafbúnaður var fastur við fuglinn. Íbúinn óttaðist að rafbúnaðurinn væri njósnagræja, handsamaði fuglinn og færði hann rakleiðis á næstu lögreglustöð.

Þar var fuglinn færður í gæsluvarðhald þar sem lögreglumenn vissu heldur ekki hverslags búnaður var fastur við kvikindið.

Morguninn eftir voru dýralæknar kallaðir á lögreglustöðina og þeir gátu loks fundið út úr þessu fyrir þjóðaröryggi Egyptalands. Búnaðurinn var festur á fuglinn af frönskum vísindamönnum sem vildi kortleggja ferðir farfugla.

Þó að búnaðurinn hafi orðið óvirkur eftir að fuglinn fór yfir landamæri Frakklands þá fékk íbúinn, sem handsamaði fuglinn og kom honum á lögreglustöðina, klapp á bakið frá Mohammed Kamal, yfirmanni öryggismála í Qena, fyrir þjóðrækni og góða hegðun.

Á sunnudaginn, þegar haft var samband við lögreglustöðina, kom í ljós að fuglinn var enn í haldi. Gawker.com segir frá örlögum fuglsins á síðu sinni hér

Stikkorð: Egyptaland  • Rugl