*

Menning & listir 1. mars 2013

Fulli blaðamaðurinn á Viðskiptablaðinu

Kvikmyndin Þetta reddast fær fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Það er ekki á hverjum degi sem alkóhólisminn verður kómískur.

Gísli Freyr Valdórsson

Kvikmyndin Þetta reddast verður frumsýnd í kvöld. Í lýsingu á myndinni kemur fram að Þetta reddast sé realískt gamandrama. Aðalpersóna myndarinnar, Villi, er ungur og dykkfelldur (svo vægt sé til orða tekið) blaðamaður á Viðskiptablaðinu. Líf hans gengur út á næsta sopa og þá skiptir engu máli hvaða tíma dags um ræðir.

Villi er kominn á tæpasta vað í vinnunni og er skikkaður til að fara í vinnuferð upp á Búrfellsvirkjun, ásamt Kjartani ljósmyndara (leikinn af Jóni Páli Eyjólfssyni), til að gera úttekt á virkjuninni. Villi hafði þó lofað kærustu sinni, Jóhönnu (leikin af Guðrúnu Bjarnadóttur), að fara upp á Búðir um sömu helgi en nær að sannfæra hana um að fara í tjaldútilegu með sér, Kjartani ljósmyndara og eiginkonu hans, Rut (leikin af Maríönnu Clöru Lúthersdóttur).

Villi er líka á síðasta séns með Jóhönnu en vonast til þess að þessi rómantíska vinnuferð, svo einkennilega sem það kann að hljóma, verði til þess að redda málunum. Vinnuferðin/útilegan verður þó einn stór skrípaleikur og áhorfendur fá það erfiða verkefni að finna með hverjum þeir ætla að hafa samúð og hverjum ekki á meðan þeir fá að hlægja að þessu öllu saman.

 

Edda bætir kryddi á leikarahópinn

Björn Thors er sannfærandi í hlutverki Villa. Honum ferst vel úr hendi að leika rakan blaðamann og það er erfitt að meta það hvort maður á að hafa samúð með greyið alkóhólistanum eða hugsa eitthvað annað verra. Eini gallinn verið hlutverk hans er að manni finnst Kenneth úr Fangavaktinni stundum læðast inn í hlutverkið, en það er kannski bara hægt að leika grey á svo og svo marga vegu. Það kemur þó ekki niður á þessum karakter og Björn sýnir afbragðsleik sem aðalpersóna myndarinnar.

Guðrún Bjarnadóttir er ekki síðri í hlutverki hinnar meðvirku Jóhönnu. Hún þarf ekki aðeins að sætta sig við allt bullið í Villa heldur er hún undir gífurlegum þrýstingi frá stjórnsamri móður sinni (sem leikin er með frábærum hætti af Eddu Björgvinsdóttur).

Maður finnur strax til með Kjartani ljósmyndara og Jón Páll Eyjólfsson nær strax að sannfæra áhorfundur um að hér sé á ferðinni saklaust grey sem vill öllum vel. Hann stendur í þakkaskuld við Villa fyrir að hafa reddað honum vinnu á blaðinu en er um leið hálfgerð barnapía hans. Fyrir utan það á hann ófríska, og umfram allt kynkalda, konu heima við sem gerir allt annað en að bæta honum upp þá hlýju og samúð sem upp á skortir í vinnunni. Maríanna Clara Lúthersdóttir sýnir einnig góðan leik sem hin skapstyggða og hormónafulla Rut sem á erfitt með að sjá góðu hliðarnar á manni sínum.

Leikur Eddu Björgvinsdóttur bætir enn í við þennan myndalega hóp leikara og hún nær að setja heilmikinn svip á myndina. Sem fyrr segir er hún kröfuhörð og á auðvelt með að vefja dóttur sinni um fingur sér um leið og á erfitt með þá staðreynd að Jóhanna sé „alveg hætt að koma í heimsókn“ þó hún komi 1-2 dag.  

 

Allir þekkja einhvern

Þetta reddast er umfram allt skemmtileg og fyndin. Allir þekkja einhvern karakter í myndinni.

Myndin einkennist af miklum húmor, þó stundum aulahúmor sem þó er fyndinn í öllu samhenginu. Börkur Gunnarsson (sem fyrir mörgum árum starfaði sem blaðamaður hér á Viðskiptablaðinu) skrifar handritið auk þess að leikstýra myndinni. Þó svo að hér sé um að ræða kvikmynd sem augljóslega hafði ekki mikið fjármagn á milli handanna þá er þetta ekki mynd sem krefst neinna tæknibrella og byggist alfarið á góðum leik, góðri leikstjórn og góðri kvikmyndatöku. Allt gengur það upp til að gera íslenskan raunveruleika kómískan.  

Ég ætla nú ekki að kannast við það að eiga samstarfsfélaga eins og Villa hér á ritstjórninni. En það er óhætt að mæla með myndinni og þá sérstaklega ef fólk er að leita sér að góðri skemmtun. Þetta reddast fær fjórar stjörnur af fimm mögulegum. 

Hér má sjá trailer úr myndinni: