*

Veiði 24. október 2015

Fullkomið app fyrir veiðimenn

Í Angling IQ appinu geta veiðimenn deilt myndum, merkt veiðistaði og fengið upplýsingar um þyngd fiska.

Trausti Hafliðason

Angling IQ er nýtt íslenskt smárforrit fyrir veiðimenn. Smáforritið, eða  appið, var nýlega gefið út á App Store og Google Play og er því bæði hægt að nota það í Apple og Android snjalltækjum.

Í stuttu máli með segja að Angling IQ sé rafræn veiðidagbók og samfélagsmiðill fyrir áhugamenn um veiði. Appið gerir notendum kleift að skrá veiðina sína í snjallsíma og deila upplýsingunum með öðrum notendum. Á meðal þess sem hægt er að skrá er lengd, ummál og þyngd fiska. Einnig er hægt að gefa upplýsingar um hvaða fluga eða beita var notuð. Það er hægt að veita upplýsingar um það hvar fiskurinn veiddist. Þær upplýsingar er hægt að skrá mjög nákvæmlega, ekki bara í hvaða á heldur á hvaða veiðistað og ef menn eru með kveikt á GPS staðsetningartækinu í símanum er hægt að skrá veiðistaðinn þannig og merkja hann inn á veiðikort. Að lokum er hægt að birta mynd af fiskinum eða bara stemmningsmyndir úr veiðinni.

Kristján Benediktsson, sem oftast er kallaður Stjáni Ben, er markaðsstjóri Angling IQ. Hann segir að notendur ráði hvaða upplýsingum þeir deili með öðrum.

„Sumir vilja kannski halda ákveðnum upplýsingum fyrir sig, eins og hvaða flugu þeir eru að veiða á eða nákvæmlega á hvaða stað þeir veiddu fiskinn," segir Kristján. "Veiðimenn geta sem sagt ráðið þessu öllu. Annað sem hægt er að gera í appinu er að hægt er að skrá veiðiferð og hafa upplýsingarnar lokaðar fyrir alla nema ákveðinn hóp manna. Þetta er mjög sniðugt fyrir vini sem eru að fara saman í veiðitúr og getur sett skemmtilegan svip á ferðina. Með því að nota þennan möguleika geta menn séð hvernig gengur hjá félögunum — skoðað myndir og deilt upplýsingum á rauntíma."

Metur þyngdina

Með nýja appinu er hægt að fá mjög nákvæmar upplýsingar um þyngd laxins án þess að vigta hann.

Veiðimálastofnun hefur birt skala sem margir styðjast við til að reyna að finna samband lengdar og þyngdar. Samkvæmt skalanum er til dæmis 78 sentímetra langur lax talinn vera nákvæmlega 5 kíló. Kristján segir að í Angling IQ appinu sé notuð fullkomnari formúla til að meta þyngdina. Veiðimenn geti mælt lengd og ummál og þegar þær upplýsingar séu slegnar inn reikni appið þyngdina. Það getur verið mikill þyngdarmundur á löxum þó þeir séu jafnlangir. Sem dæmi þá er lax, sem er 78 sentímetra langur og 38 sentímetrar í ummál, nákvæmlega 5 kíló en 78 sentímetra lax, sem er 45 sentímetra í ummál, er 5,65 kíló.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: laxveiði