*

Veiði 15. júlí 2017

Fullkomin fluguveiðiá

Svalbarðsá er ein af perlunum í Þistilfirði og algengt er að hlutfall stórlaxa af heildarveiðinni sé í kringum 50%.

Trausti Hafliðason

Nokkrar af skemmtilegustu laxveiðiám landsins renna til sjávar í Þistilfjörð á norðausturhorni landsins. Eru þetta Hafralónsá, Hölkná, Sandá og Svalbarðsá. Nokkur dulúð hefur verið yfir þessum ám enda hafa sumar þeirra verið í leigu til einkaaðila, sem hafa ekki selt veiðileyfi  til almennings á þetta sérstaklega við um Sandá.

Veiðifélagið Hreggnasi hefur um árabil verið með Svalbarðsá á leigu. Jón Þór Júlíusson er framkvæmdastjóri Hreggnasa.

„Þó þær séu allar á sama svæði þá eru þær skemmtilega ólíkar árnar í Þistilfirði," segir Jón Þór. „Svalbarðsá er miðlungs stór á með stórum á miklum hyljum inni á milli. Það mætti segja að hún sé svona svipuð að stærð og Elliðaárnar í góðu vatni."

Litlar flugur og langir taumar

„Svalbarðsá er fullkomin fluguveiðiá, tær og hraðrennandi. Litlar flugur og langir taumar eru málið. Svalbarðsárlaxinn er ágengur og þess vegna er líka mjög gaman að nota gárubragðið (e. hitch). Veiðistaðirnir eru fjölbreyttir en áin er samt þannig að þeir sem koma þangað í fyrsta skiptið geta átt það á hættu að vera flengdir því áin er krefjandi og mikið af litlum stöðum, holum, sem geyma fisk. Persónulega finnst mér alltaf gaman að veiða í Svalbarðsá, sama á hvaða tíma ég fer en besti tíminn hvað laxagengd varðar er frá 15. júlí til 15. ágúst."

Hreggnasi tók Svalbarðsá á leigu árið 2006 og árið 2009 var sett sú regla að sleppa eigi öllum laxi. Þegar veiðitölur eru skoðaðar sést að árið 2006 veiddust 283 laxar í ánni. Árin 2007 og 2008 veiddust um 300 laxar hvort ár en árið 2009 veiddust 434 laxar. Frá aldamótum hefur veiðin mest farið í 562 laxa en það var árið 2011.

„Áin geymir töluvert af fiski og er gjöful miðað við tveggja til þriggja stanga á en hún geymir ekki það magn af laxi sem til dæmis Norðurá eða Grímsá geymir. Svalbarðsá hefur aftur á móti miklu hærra hlutfall af stórlaxi, eins og gjarnan er með ár á þessu landsvæði. Það hafa komið sumur hjá okkur þar sem hlutfall stórlaxa af heildarveiðinni hefur verið hátt í 70%. Það er mjög algengt að hlutfallið sé í kringum 50%."

Fljót að breytast

Jón Þór segir að vatnsstaðan í Svalbarðsá sé mjög fljót að breytast. Hún geti á skömmum tíma farið úr mjög litlu vatni í flóð. Hún renni aftur á móti þannig að hún sé ágætlega veiðanleg í flóðum.

„Vegna þessa þá tel ég að hún henti mjög vel til endurveiða á laxi. Laxinn er mjög mikið á ferðinni. Við höfum fengið þetta staðfest þegar við höfum merkt laxa. Það eru dæmi um að lax hafi veiðst á efsta svæðinu og síðan nokkru seinna hafi sami lax veiðst mjög neðarlega í ánni og enn seinna um sumarið kannski um miðbik hennar. Ég er þeirrar skoðunar að allar ár geti hagnast á veiða og sleppa fyrirkomulaginu en sumar skili betri endurveiði og Svalbarðsá er dæmi um slíka á.

Ef við lendum í erfiðu sumri og tökum megnið af fisknum úr ánni þá segir það sig sjálft að veiðin minnkar í framhaldinu. Þetta er ekkert flókið. Það er ekki hægt að veiða aftur fisk sem einhver tók með sér heim. Tíu árgangar af stórlaxi taka fimmtíu ár í framleiðslu. Þá er ég að miða við að seiði sé í þrjú ár í ánni áður en það fer út í sjó það sem laxinn dvelur í tvö ár áður en hann kemur aftur upp í ána."

Örlagavaldar í lífi laxa

„Mér finnst alltaf sérstakt þegar sumir segja að veiða og sleppa fyrirkomulagið hafi ekki skilað neinu í Vatnsdalsá. Þetta fyrirkomulag hefur bara verið í gangi þar í 20 ár og það er mjög lítill tími í þessu stóra samhengi sem ég var að benda á. Það er ekki bara sjórinn sem er örlagavaldur í lífi laxa heldur einnig uppeldisstöðvarnar í ánum. Ef það verða krapastíflur yfir veturinn og mikil flóð þá getur það haft gríðarleg áhrif á afkomu seiðanna."

Hreggnasi skrifaði undir nýjan leigusamning í fyrra og verður með Svalbarðsá á leigu næstu fimm árin.

17 kílómetra veiðisvæði

Svalbarðsá er 37 kílómetra löng dragá, sem á upptök í Djúpárbotnum í Öxfirðingaafrétti. Á efsta svæðinu rennur hún í gljúfrum. Jón Þór segir að veiðisvæðið sé um 17 kílómetrar og veitt sé á tvær stangir fyrstu dagana í júlí en síðan á þrjár. Veitt er frá 1. júlí til 20. september.
 

Greinin birtist í sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: stangaveiði  • laxveiði  • lax  • Svalbarðsá