*

Hitt og þetta 17. mars 2014

Furðulegar beiðnir hótelgesta

Súkkulaðistyttur, einhyrningar og kameldýr hljóta að teljast með furðulegri óskum hótelgesta.

Venjulegar óskir hótelgesta eru kannski blóm sem bíða inni á herberginu, miðar á vinsælt leikrit eða söngleik eða aukakoddi.

En síðan eru það óskirnar sem þykja svo undarlegar að þær rata í hressilegar samantektir á vefsíðum fjölmiðla eins og CNN. Þar er að finna sniðuga grein þar sem teknar eru saman furðulegustu óskir hótelgesta.

Á meðal þeirra eru til dæmis hjónin áströlsku sem voru á leið í brúðkaupsferð til New York og áttu bókað herbergi á The Waldorf Astoria. Þau báðu um styttur af þeim úr súkkulaði í raunstærð. Bakarameistari hótelsins hafði bara myndir af þeim til að vinna með og þess vegna tók verkið marga mánuði.

Á Loews Ventana Canyon Resort í Tucson, Arizona, var það síðan gesturinn sem bað um að fá að kaupa tvö kameldýr. Yfirmaður móttökunnar fann kameldýrasala á innan við 35 mínútum.

Stórt fyrirtæki hafði samband við Vegas Luxury Group VIP  og bað um nákvæma eftirlíkingu á steggjapartýinu í bíómyndinni Hang Over. Það var minnsta mál. Svítan sem birtist í bíómyndinni var leigð, leikarar í tígrisdýrabúningum mættu á svæðið ásamt eftirhermu Mike Tyson og leikara í ungbarnabúningi. 

Fyrir ykkur sem viljið lesa nánar um óhefðbundnar fyrirspurnir hótelgesta smellið þá hér. 

Stikkorð: Hótel  • Rugl  • Furðulegt