*

Ferðalög & útivist 13. mars 2013

Furðulegustu smábæir veraldar

Gamlir trúðar, brotlent geimskip og andaglas eru hlutir sem má finna í nokkrum smábæjum sem teljast þeir furðulegustu í heimi.

 Ef það er stemmning fyrir öðruvísi sumarfríi í sumar þá hefur BBC tekið saman skemmtilegan lista en þar er að finna samansafn af furðulegum smábæjum.

Geimverubær í Nýju Mexíkó. Samkvæmt sögusögnum þá átti geimskip að hafa brotlent í bænum Roswell í Nýju Mexíkó árið 1947. Bærinn hefur að sjálfsögðu gert út á þessa meintu brotlendingu því á hverju einasta horni í bænum má sjá eitthvað sem minnir á líf á öðrum hnöttum, hvort sem það er safn, McDonalds lógó í laginu eins og geimskip eða búðir sem selja hluti sem tengjast geimverum. Síðan má ekki gleyma öllum ráðstefnunum sem haldnar eru í bænum í tengslum við líf á öðrum hnöttum.

Bær andanna í New York fylki. Bærinn Lily Dale í New York fylki er frægur fyrir að vera í góðum tengslum við heim andanna og framliðinna. Bærinn er mjög þekktur hjá miðlum og hefur verið skrifað mikið um hann og gerð heimildamynd. Skógurinn í bænum heitir Forest Temple og er búinn að vera mjög vinsæll fyrir miðilssamkomur og ýmiss konar hugleiðslur alveg síðan 1894.

Óður til Englands. Í úthverfi Shanghai má finna þorpið Thames Town sem er nákvæm eftirlíking af ensku þorpi. Gamlar steingötur, rauðir símaklefar og pöbbar gætu látið fólk halda að það væri komið til Englands. Bærinn er mjög vinsæll fyrir brúðarmyndatökur.

Varasamur bær á Spáni.  Bærinn Setenil de las Bodegas er mjög sérstakur að því leyti að margir íbúar búa í hálfgerðum hellum sem byggðir eru inn í kletta sem bærinn hangir utan í.

Sirkusbær í Flórída. Í marga áratugi hefur Gibsonton í Flórída verið vinsæll bær fyrir ellilífeyrisþega. En þetta eru engir venjulegir eldri borgarar því þeir eru flestir sirkus starfsmenn sem komnir eru á eftirlaun. Al Tomaini heitir einn íbúanna en hann er 2,4 metrar á hæð. Styttu af honum má finna í miðbænum. Bæjaryfirvöld taka að sjálfsögðu tillit til íbúanna og því er leyfilegt að hafa hjólhýsi og fíla á lóðum.

 

 

Stikkorð: Ferðalög