*

Hitt og þetta 12. ágúst 2013

Furðulegustu störfin í lúxushótelbransanum

Sum hótel eru svo elegant að það þarf sérstakan starfsmann sem sér bara um að marsera tvisvar á dag með flokk af öndum, svo dæmi séu tekin.

Sú var tíðin að gestir lúxushótela sættu sig við breitt bros starfsfólks og mjúkra sófa í anddyrinu. En í dag, þar sem hvert lúxushótelið reynir að toppa hið næsta (sjá hamaganginn í París þessa dagana), þá er ekki lengur nóg að starfsfólk brosi og bendi gestum á bestu veitingastaðina í borginni.

Í dag keppast hótelin við að ráða til sín fólk sem er mjög sérhæft á alls kyns undarlegum sviðum. The Telegraph hefur skoðað furðulegustu störfin á lúxushótelum. Og af nógu er að taka.

Á The Peabody í Memphis  er staða sem kallast „The Duckmaster”. Á hótelinu búa nefnilega fimm endur í lítilli höll. Klukkan 11 á morgnanna ganga endurnar fylktu liði niður rauðan dregil út úr höllinni sinni undir laginu Kings Cotton March. Klukkan fimm síðdegis ganga endurnar síðan í takt aftur heim í höllina sína. Starfsmaður sem gegnir stöðunni „The Duckmaster" stjórnar þessu öllu og fer þetta fram á hótellóðinni svo gestirnir fylgjast að sjálfsögðu spenntir með. Þetta hljómar eins og lygi en þetta er satt.

Á hótelinu Taj Boston er sérstakur starfsmaður sem sér eingöngu um að kveikja í arninum á herbergjum gestanna.

Á Ritz Carlton Dove Mountain er sérstakur þjónn sem sér einungis um að gefa gestum tekíla að drekka. Svo, ef gestir eru þyrstir í tekíla þá þarf bara að hringja í Richard Gutierrez sem er tekílaþjónn hótelsins.

Ef þú ferð í sólbað á Akaryn hótelinu í Tælandi  þá þarftu ekki að hafa neinar áhyggjur af því að sólbrenna því sérstakur starfsmaður vinnur við það að ganga á milli gesta, bera á þá sólvörn og fylgjast með gangi mála fram eftir degi.

Stikkorð: Lúxus  • lúxushótel  • Rugl