*

Matur og vín 15. október 2013

Furðulegustu veitingastaðir í heimi

Fljúgandi þjónar, vín í pelum og hjólastólar fyrir fólk sem borðar yfir sig. Þetta og fleira huggulegt má finna á furðulegustu veitingastöðum í heimi.

Flestir fara út að borða til að fá góðan mat og gera sér glaðan dag. En til eru veitingastaðir sem einblína ekki bara á matreiðslu heldur furðulegheit. Skoðum nokkra góða:

Twin Stars Diner í Moskvu:

Alexei Khodorkovsky heitir maður sem ákvað að opna veitingastað með tvíburaþema: Twin Stars Diner. Allt starfsfólkið, þjónar, barþjónar og meira að segja kokkar eru tvíburar klæddir í eins föt. Khodorkosvky sagði það hafa verið snúið að finna nægilega hæft starfsfólk í stöðurnar en konseptið slær í gegn og staðurinn, sem er opinn allan sólarhringinn, er mjög vinsæll.

Le Refuge des Fondues í Paris:

Á þessum veitingastað er fondúþema og ef það þykir ekki furðulegt eitt og sér þá byrjar ballið þegar vínið er borið á borð…í pelum. Svo, gestir geta japplað á matarbitum dýfðum ofan í bráðinn ost, og sogið vín úr pelum. Eðlilegt? Ferðamenn hafa hópast á staðinn síðustu áratugina svo eitthvað er að ganga upp á Le Refuges des Fondues.

The Royal Dragon í Bangkok, Tælandi.

The Royal Dragon er ekki beint staðurinn sem fólk ætti að velja ef það vill sitja í ró og næði og slaka á. Staðurinn nær yfir 8,35 ekrur og þar eru 1000 starfsmenn sem sjá um að allt gangi smurt. Þjónarnir eru 540 talsins, klæddir í litríka búninga og á hjólaskautum. Á veitingastaðnum eru sæti fyrir 5000 manns. Úrvalið á matseðlinum er ágætt, yfir 1000 réttir en flestir koma til að sjá dansatriði starfsfólksins og þjónana þjóta yfir salinn bundna í járnvír. Já já.

The Heart Attack Grill, Las Vegas.

Þetta er nú eitthvað fyrir þá hungruðu. Á The Heart Attack Grill í Las Vegas er lögð áhersla á stóra skammta. Gestir fá sjúkrahússloppa til að klæðast áður en þeir gæða sér á réttum sem heita „quadruple bypass burger” sem er fjall af hamborgara með tuttugu beikonsneiðum. Þjónustustúlkurnar eru klæddar eins og hjúkrunarkonur og það er í boði að fá hjólastól á leið út fyrir þá allra söddustu.

Fyrir ykkur sem viljið lesa um fleiri furðulega veitingastaði sjá grein á The Guardian hér.

Stikkorð: Veitingastaðir  • Furðulegt