*

Menning & listir 12. nóvember 2017

Fylgdi hjartanu og ástríðunni

Embla Sigurgeirsdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir sköpun sína.

Kolbrún P. Helgadóttir

Það er óhætt að segja að það séu mörg handtök á bak við hvern hlut eftir sjálfstætt starfandi keramik-hönnuðinn Emblu Sigurgeirsdóttur sem vakið hefur verðskuldaða athygli fyrir sköpun sína. Eftir vinnu leit við á vinnustofu hennar í Hafnarfirði þar sem hún var með hendurnar á kafi í leir

Annaðhvort er ég að vinna á vinnustofunni minni í Hafnarfirði eða í galleríinu mínu Kaolín á Skólavörðustíg 5 en einnig fara sumir dagar í ýmsa snúninga í sambandi við vörur og annað. Svo á ég líka tvær dætur sem gefa lífinu lit. Mér finnst eins og engir dagar séu eins og oft eitthvað sem kemur upp á sem hliðrar öllu til og kemur manni á óvart. Ég er orðin frekar vön þessu og tek hverjum degi eins og hann kemur en held að það sé hægt að segja að engir dagar séu í raun venjulegir. Hvenær vissirðu að þetta væri það sem þig langaði að starfa við? Fyrir sjö árum síðan stóð ég á tímamótum í lífi mínu og fann að ég þurfti að breyta til og ákvað að fara í nám. Örlögin leiddu mig síðan í Myndlistaskólann í Reykjavík í nám sem heitir Mótun og það var ekki aftur snúið, það kviknaði eitthvað inní mér og ástríðan fyrir efninu lifnaði við.

Mikið ævintýri
Hvar lærðirðu? Ég lærði í Myndlistaskólanum í Reykjavík í tvö ár í mótun en eftir það lá leiðin til Norður-Englands þar sem ég kláraði BA(hons) í Contemporary Applied Art við The University of Cumbria. Hvernig var að búa þar? Það var mikið ævintýri og mikilvægt að mínu mati að fá reynsluna af keramiki erlendis, sérstaklega í Englandi þar sem keramik á sér langa sögu ólíkt Íslandi. Þetta ár fengum við frjálsar hendur við hönnun okkar og unnum sjálfstætt allan veturinn sem var mikill lærdómur. Skólinn er í Cumbria-héraði og nálægt hinu fallega Lake District svæði sem ég heimsótti einmitt þegar það skartaði sínu fegursta um haustið. Það var auðvelt og ódýrt fyrir okkur að ferðast til nálægra borga og nýtti maður sér það mikið til að skreppa yfir daginn á aðra staði til að brjóta upp tilveruna

Fiskbein og birkitré
Að hverju ertu að vinna um þessar mundir? Í dag er ég aðallega að vinna í tveimur línum. Önnur er unnin með fiskbeinum þar sem ég nota ekta fiskbein til að þrýsta mynstur í skálar og diska en útkoman minnir mig svolítið á steingervinga. Hin er tilvísun í birkitré en þar nota ég hnífa til að skera út í postulínið og næ þar fallegri áferð sem ég hef þróað með ákveðinni tækni. Sú lína samanstendur af kertaluktum, skálum, krukkum og vösum en við hana er alltaf eitthvað nýtt að bætast. Veturinn verður spennandi og núna er nóg að gera við að undirbúa hann og auðvitað jólin, bæði fyrir galleríið sem og Ráðhúsmarkaðinn sem verður seinustu helgina í nóvember. Síðan eru fram undan einnig aðrir minni markaðir í kringum jólin og nokkur verkefni og pantanir sem ég er að vinna að

Hugmyndir út frá mistökum

Hvað veitir þér innblástur? Það má segja að innblásturinn komi úr ýmsum áttum. Ég hef fengið hugmyndir að ákveðnum formum sem ég sé eða áferðum sem ég hef síðan yfirfært yfir á keramikið. Síðan hafa margar hugmyndir sprottið út frá efninu sjálfu, bæði eiginleikum þess þar sem postulínið vill oft fara sínar eigin leiðir og síðan einnig út frá mistökum, en ég hef bókstaflega fengið góðar hugmyndir út frá því að annaðhvort missa eitthvað óvart eða einfaldlega henda því í gólfið í pirringskasti. Ég skissa ekki mikið á pappír einmitt vegna þessa og finnst langbest að skissa í leirinn sjálfan og leyfa hugmyndum að koma þannig. Það er margt sem fer í gang í hausnum á meðan maður vinnur þannig að nauðsynlegt er að vera með glósubók við hliðina á sér því ýmsar hugmyndir kvikna í vinnuferlinu sem mann langar til að þróa seinna meir.

Lífið mikill rússíbani
Hvernig upplifun er að vera hönnuður/listamaður á Íslandi? Það er gífurlega erfitt að láta enda ná saman í þessum bransa og maður vinnur tvöfalda vinnu til að reyna að halda sér á floti. Það tekur auðvitað tíma að skapa sér nafn og maður verður stundum að vera tilbúinn til að fórna ýmsu til að geta haldið þessu áfram en ástríðan fyrir sköpuninni heldur manni við efnið og Pollýannan er bráðnauð- synleg og besta vinkonan. Markaðurinn er auðvitað lítill hér á landi og lítið vit í öðru en að reyna að koma hönnun sinni út fyrir landssteinana þar sem markaðurinn og möguleikarnir eru stærri. En það getur auðvitað líka verið flókið ferli sérstaklega þar sem ég vinn með brothætta hluti sem er kannski ekki það einfaldasta að flytja á milli. Það er margt sem spilar inní hjá mér eins og efniskaup og annað en ég þarf að panta meirihlutann af öllu sem ég þarf erlendis frá og það getur verið mjög dýrt þar sem hagstæðast er þá að kaupa í magni. Maður fer óneitanlega oft í gegnum þá hugsun hvort skynsamlegra væri að búa erlendis og vinna þaðan, það myndu opnast ýmsir möguleikar fyrir manni þannig og það kitlar mann að prufa einn daginn en auðvitað myndi maður þá standa frammi fyrir öðrum vandamálum. Lífið er mikill rússíbani hjá manni og stöðugleiki er ekki orð sem maður þekkir. Ég er oft spurð að því af hverju í ósköpunum ég valdi mér þessa leið en við því er ekki annað hægt að segja en að ég fylgdi hjartanu og ástríðunni í þetta skiptið og fyrir mér er annað bara ekki valkostur jafnvel þótt það sé betur borgað og kannski svolítið skynsamara. Ég hef ákveðið að hafa hugann opinn í þessu ævintýri mínu og veit að það á eftir að leiða mig áfram í spennandi áttir.

Helstu viðskiptavinirnir ferðamenn
Eru Íslendingar duglegir að kaupa íslenska hönnun? Já og nei, mér finnst eins og ég heyri svo oft frá þeim að þeir gleymi því að öll þessi flotta íslenska hönnun sé til staðar þegar kemur að því að finna gjafir og annað. Hjá mér eru kaupendur að meirihluta ferðamenn en þeir sækja auðvitað í séríslenska vöru og vilja helst að hún sé búin til á Íslandi af Íslendingi. En gengið er okkur ekki alltaf hagstætt og maður finnur fyrir því þegar krónan er sterk að þeir halda þá meira að sér höndum. Það var til dæmis mjög áberandi núna í sumar. Íslendingar eru síðan duglegri að versla hjá mér fyrir jólin og mér finnst það alltaf langskemmtilegasti tími ársins. Samkeppnin er líka mikil núna þegar stór merki koma fram með keramik sem er fjöldaframleitt og ódýrt og fólk skilur kannski ekki alltaf þá gífurlega miklu vinnu sem liggur að baki handunninni vöru. Ferlið er langt og flókið og vinnustundirnar margar og launin oft ekki í samræmi við það. En það er heillandi og gefandi að vinna í leir og mér finnst það alger forréttindi að geta látið þetta takast hjá mér. Efinn læðist stundum að manni en þá er maður fljótur að snúa því við og grípa í Pollýönnu vinkonu og hundsa mótlætið. Hvar má nálgast hönnun þína hér á landi? í Reykjavík er ég með gallerí á Skólavörðustíg 5 sem heitir Kaolin en það rek ég ásamt sex öðrum íslenskum keramikerum. Úti á landi er ég með vörur í Blóðberg á Seyðisfirði, Hótel Laxá á Mývatni og í Krambúðinni í Norska húsinu á Stykkishólmi. Ég er líka að vinna í netverslun sem verður vonandi komin í gang bráðlega. Verk eftir hvaða hönnuð eða listamann dreymir þig um að eignast? Ég myndi vilja eignast verk eftir Lucie Rie, hún er í miklu uppáhaldi hjá mér.

Instagram: emblasig Facebook: byembla