*

Matur og vín 12. febrúar 2020

Fylltu námskeið í ítalskri matargerð

Það seldist upp á tveimur tímum í námskeið í ítalskri matargerð hjá kokkinum Michele Manchini á vegum Kjötkompaníisins.

Kjötkompaníið, félag Jóns Arnars Stefánssonar, fyllti á tveimur tímum námskeið sem haldið verður í ítalskri matargerð með ítölskum kokk sem kemur sérstaklega til landsins til að kenna á því. Félagið hefur síðustu ár kynnt til sögunnar sérvaldar vörur frá Ítalíu.

Til þess að miðla ástríðunni fyrir ítalskri matargerð til viðskiptavina sinna fékk Kjötkompaní ítalskan stórvin og margrómaða kokk, Michele Manchini, til þess að koma til Íslands, miðla af reynslu sinni og kenna allt það helsta í ítalskri matargerð. Áhuginn var enn meiri en menn leyfðu sér að vona því að alls 80 pláss á 4 námskeiðum seldust upp á aðeins tveimur tímum.

Jón Örn Stefánsson eigandi Kjötkompaní er í skýjunum með viðtökurnar.

„Við rétt náðum að setja þetta í loftið og þá var orðið uppselt. Þeir sem tryggðu sér pláss eiga gott í vændum, Michele vinur okkar er sannkallaður meistarakokkur.“

Michele starfar sem yfirmatreiðslumaður á hótelinu Stella della Versilia sem staðsett er í Marina Di Massa, í Toscana. Hann hefur verið Jóni Erni og Kjötkompaní innan handar með val og þróun á ítölsku vörulínunni sinni, Kjötkompaní Ítalia.

„Það að Kjötkompaní sé með risastóra vörulínu af ítölskum vörum á sér afskaplega einfalda skýringu: Við elskum ítalska matargerð og alvöru ítalskan mat. Við viljum gjarnan miðla þeirri matarást okkar til viðskiptavina okkar og bjóða íslendingum upp á það besta sem Ítalía hefur að bjóða. Vörurnar koma frá Ítalíu án milliliða, beint til okkar. Alvöru ítalskar vörur frá fjölskyldufyrirtækjum, lagaðar eftir aldagömlum hefðum og uppskriftum,“ segir Jón Örn.

„Við höfum farið ótal ferðir út til Ítalíu í þessu ferli og ég verð að viðurkenna að ég er nánast búinn að missa tölu á vörunum sem við erum komin með í þessa línu. Vörurnar eru fjölbreyttar. Sósur, pasta, olíur, pestó, trufflur og margt fleira, það er eiginlega bara ekki hægt að hætta, þetta er svolítið eins og krakki í nammibúð samlíkingin.“

Jón Örn segir að miðað við viðtökurnar á Ítaliunámskeiðunum þurfi þau alvarlega að skoða að bæta við fleirum eða fá Michele fljótt aftur í heimsókn. Kjötkompaní ehf. var stofnað í september árið 2009, við Dalshraun 13 í Hafnarfirði, og er félagið vel tengt framleiðendum og í mörgum tilvikum er verið að versla beint frá bónda.