*

Menning & listir 10. janúar 2017

Fyrir fyrstu skref í fjármálum

Bókin Lífið er rétt að byrja er hugsuð fyrir ungt fólk sem er að verða fjarráða og fjallar um grunnatriði í fjarmálum einstaklinga.

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, og höfundur bókarinnar Lífið er framundan sem kom út í nóvember 2015, hefur gefið út nýja bók, sem heitir Lífið er rétt að byrja, en hann segir hana tilvalinn inngang að fyrri bókinni sem hlotið hefur þónokkra athygli.

Eldri bókin fjallar um fjármál ungs fólks sem er að hefja framhaldsnám, starf á vinnumarkaði, byrja að búa og stefnir að fjárhagslegu sjálfstæði.

Nýja bókin heitir Lífið er rétt að byrja, en hún fjallar um grunnatriði í fjármálum einstaklinga. Er bókin skrifuð fyrir ungt fólk sem er að verða fjárráða og er að stíga sín fyrstu skref í fjármálum.

Hjálpar við að taka upplýstar ákvarðanir

Bókin fæst í helstu bókabúðum auk hjá útgefenda, en í fréttatilkynningu frá Framtíðarsýn sem gefur bókina út er vísað í umsagnir um bókina:

„Skemmtilega skrifuð og aðgengileg bók um fjármál einstaklinga sem mun vafalítið auðvelda ungu fólki að taka upplýstar ákvarðanir um eign fjármál,“ segir Aðalheiður Ásgrímsdóttir, viðskiptafræðingur og kennari í viðskiptagreinum við Verslunarskóla Íslands.

„Ég er bara ánægður með ritið og tel mikinn feng að því. Veit fyrir víst að það hefur vantað námsefni á þessu sviði fyrir framhaldsskólana. Bókin er skýr og skipuleg,“ segir Gylfi Magnússon, dósent í fjármálum.

„Ungt fólk er áhugasamt um fjármál. Hingað til hefur vantað almenna kennslubók í grunnatriðum fjármála. Bókin hentar vel til kennslu á framhaldsskólastigi,“ segir Jón Ragnar Ragnarsson, framhaldsskólakennari í fjármálalæsi og þjóðhagfræði við MH.

„Að ná góðum tökum á fjármálum snemma á lífsleiðinni er ein besta gjöf sem hægt er að gefa sér til framtíðar. Þessa bók ættu allir að lesa áður en þeir verða fjárráða,“ segir Kristófer Már Maronsson, hagfræðinemi og formaður Stúdentaráðs HÍ.