*

Menning & listir 10. apríl 2020

Fyrirtæki flaggar í hálfa stöng

Einungis eitt fyrirtæki sást halda í fánahefð dagsins. Ólík þróun frá síðustu kreppu þegar flaggað var víða til samstöðu.

Höskuldur Marselíusarson

Í dag föstudaginn langa mæla fánalög fyrir um að flaggað sé í hálfa stöng en ólíkt því sem var og er enn víða á landsbyggðinni eru fá fyrirtæki í borginni sem halda í hefðina.

Er það þveröfugt við það sem gerðist í síðustu kreppu þegar mörg fyrirtæki, eins og til að mynda N1 og Eimskip, lýstu því yfir að þau myndu flagga daglega til að lýsa samstöðu með þjóðinni í gegnum erfiða tíma hefur fáninn ekki verið settur í það sama öndvegi nú þegar þjóðin hefur sýnt að öðru leiti fádæma samstöðu á erfiðum tímum.

Virðist það vera staðan þrátt fyrir að Marta Magnúsdóttir, Skátahöfðingi Íslands hefur bent á að skátafélög borgarinnar séu boðin og búin að vinna að því með fyrirtækjum að halda í hefðina þegar Eftir Vinnu Viðskiptablaðsins ræddi málið við hana á Páskum fyrir tveimur árum.

Eitt fyrirtæki sást halda í hefðina

Eftir stutta yfirferð um fyrirtækjahverfið í Múlunum í Reykjavík sá blaðamaður einungis eitt fyrirtæki halda í hefðina og flagga í hálfa stöng, en það er Veiðihornið í Síðumúla, en þar hefur löngum verið flaggað daglega síðustu ár og misseri.

Eftir vinnu Viðskiptablaðsins fjallaði um það á Páskunum fyrir tveimur árum hve fánahefðinni virtist fara hnignandi, fyrst og fremst þó hjá fyrirtækjum landsins og opinberum aðilum, en síður hjá almenningi sem enn flaggaði hinum fallega íslenska fána hátt á loft.

Voru jafnvel áberandi dæmi um kirkjur sem ekki flögguðu í hálfa stöng eins og hefð er fyrir á Föstudeginum langa til að minnast fórnardauða Jesú Krists sem kristnir menn víða um heim minnast í dag.

Aðalfögnuður þeirra og flestra landsmanna verður svo „á þriðja degi“, það er á Páskasunnudag eins og segir í Nýja testamenti Biblíunnar, en þá mælir hefin fyrir að flaggað sé í heila stöng til að fagna upprisu krists og sigri yfir dauðanum.

Aðrir fánadagar sem mælt er fyrir um í forsetatilskipun, þó alls ekki sé óheimilt að flagga aðra daga, eru:

 • Fæðingardagur forseta Íslands - 26. júní
 • Nýársdagur
 • Föstudagurinn langi - flaggað í hálfa stöng
 • Páskadagur
 • Sumardagurinn fyrsti
 • 1. maí
 • Hvítasunnudagur
 • Sjómannadagurinn
 • 17. júní
 • 1. desember
 • Jóladagur
 • Fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar - 16. nóvember

Viðskiptablaðið fjallaði um það eftir þessa tilteknu Páska að Garðabær hefði verið eini bærinn af þeim sem athugaðir voru sem flögguðu fyrir utan bæjarskrifstofur sínar. Síðan hefur þó blaðamaður tekið eftir að fleiri bæjarfélög hafa tekið á sig rögg og nýtt opinbera fánadaga til að flagga.

Marta Magnúsdóttir Skátahöfðingi sagði í viðtalinu sakna þess að sjá íslenska fánann blakta við hún hér í borginni eins og hún var vön að sjá í sínum heimabæ þar sem skátafélagið á staðnum tók að sér að flagga fyrir bæjarfélagið og víða er gert einnig fyrir fyrirtæki.

„Þegar ég er í Reykjavík finnst mér ég aldrei sjá íslenska fánann, það er eiginlega þannig. Ég get alveg tekið undir það að virðingin fyrir hefðinni virðist vera að minnka, sem er miður,“ segir Marta. „Ég er líka viss um að ef fólk hóar í næsta skáta, séu þeir ávalt viðbúnir að hjálpa, en svo má líka alltaf hringja á skrifstofutíma hér í bandalagið í síma 559-9800.“ 

Marta segir þó að það fari mjög mikið eftir því hvar á landinu sé um að ræða og segir miður ef dregið hefur úr metnaði fyrir því að flagga þjóðfánanum.

„Já auðvitað eigum við að flagga á fánastöngum landsins á fánadögunum. Við þurfum endilega að snúa þessari þróun við, það er mjög gaman að sjá íslenska fánann við hún, enda fellur hann vel við okkar umhverfi,“ segir Marta og tekur dæmi um hve flott er að sjá svissneska fánann við hún alls staðar sem komið er þar í landi og tekur fyrir að um einhvern þjóðrembing sé að ræða.

„Ég er sjálf úr Grundarfirði og þar er fólk mikið að flagga, og sást til dæmis fáninn í hálfa stöng víða á Föstudaginn langa, sem og almennt á hátíðum og fánadögum er mikið um að einstaklingar og fyrirtæki flaggi. Í bænum sjá skátarnir um það að flagga fyrir bæjarfélagið og er ég viss um að mörg skátafélög hér í borginni væru til í að taka það sér fyrir sveitarfélög og fyrirtæki í borginni að sjá um að halda í virðingu fánans og hefðanna.“

Skátarnir hafa löngum haldið úti verkefninu Íslenska fánann í öndvegi en sem hluti af því hafa skátarnir í samstarfi við Eimskip gefið grunnskólabörnum bækling með fánareglunum og litla fánaveifu.