*

Sport & peningar 7. júlí 2011

Fyrirtæki keppa í hindrunarhlaupi

Íslenskir keppendur á heimsleikunum í Crossfit standa fyrir hindrunarhlaupi adidas sem fram fer í dag.

Hindrunarhlaup adidas fer fram við Kringluna í dag en hlaupið er liður í fjáröflun fyrir íslenska þátttakendur á heimsleikunum í Crossfit sem fara fram nú í lok júlí.

Í Viðskiptablaðinu í dag er fjallað um heimsleikana undir flokknum Sport og peningar og rætt við Evrópumeistarann í Crossfit, Annie Mist Þórisdóttur sem nýlega gerði styrktar- og auglýsingasamning við Reebok.

Adidas hlaupið er byggt á erlendri fyrirmynd sem er farin að verða mjög vinsæl um öll Bandaríkin en þetta er í fyrsta sinn sem hindrunarhlaup er haldið á Íslandi með þessum hætti.

„Markmiðið var að halda skemmtilegan og fjölskylduvænan viðburð sem fær fólk að hreyfa sig saman utandyra“ segir Róbert Traustason, rekstrarstjóri Boot Camp og einn skipuleggjenda adidas hlaupsins.

„Svona hindrunarhlaup njóta vinsælla víða í Bandríkjunum og þykja bæði vera góð hreyfing og ekki síðri skemmtun fyrir einstaklinga, fjölskyldur og vinnufélega.“

Róbert segir að hlaupið sé hugsað almenningi og fólki með ólíka hlaupagetu, því sé vegalengdin ekki löng heldur aðeins 4 kílómetrar.

„Á leiðinni verða hindranir á vegi fólks sem þarf ýmist að koma sér yfir, undir eða í gegnum sem gera hlaupið mun fjölbreyttara og skemmtilegra að okkar mati en hefðbundin götuhlaup,“ segir Róbert.

„Hindranirnar eru þannig að þú gætir lent í því að þurfa að takast á við þær í nútímalegu borgarumhverfi. Þær eru þó ekki þannig að fólk festist í þeim heldur komast allir fram hjá þeim með einum hætti eða öðrum:“

Einnig fer fram fyrirtækjakeppni sem virkar þannig að eins margir starfsmenn fyrirtækis og vilja geta tekið þátt en það er samanlagður tími þriggja fljótustu hlauparanna sem telur. Fyrirtækið sem á besta samanlagðan tímann fær bikar og vegleg verðlaun s.s. Sushi veislu frá Nings, kaffivörur frá Te og Kaffi, Powerade drykki o.fl.

Auk þessa verður einnig boðið upp á 1 km krakkabraut sem er þá hugsuð fyrir 10 ára og yngri sem geta farið hana í fylgd fullorðinna.

„Við vonum að þetta geti orðið skemmtileg fjölskylduskemmtun og jafnvel haldið aftur að ári ef vel gengur í þetta sinn,“ segir Róbert.
 
Margir Íslendingar á heimsleikunum

Auk Annie Mistar mun Elvar Þór Karlsson, meðeigandi hennar að Crossfit BC, einnig taka þátt á heimsleikunum um næstu mánaðarmót. Hann tryggði sér þátttökurétt með því að lenda í 3. sæti á Evrópuleikunum í júní. Þá mun Helga Torfadóttir frá Crossfit Reykjavík einnig taka þátt í einstaklingskeppni kvenna.

Loks munu tvenn lið frá Íslandi taka þátt, Crossfit Boot Camp og Crossfit Sport en bæði þessi lið voru í þremur efstu sætunum á fyrrnefndum Evrópuleikum. Keppnin verður erfið en Íslendingar hafa undanfarið unnið verulega á í þessari íþrótt og því má búast við öllu.


Annie Mist Þórisdóttir er Evrópumeistari í Crossfit og mun taka þátt á heimsleikunum næstu mánaðarmót. Í Viðskiptablaðinu í dag er rætt við Annie MIst um Crossfit íþróttina og nýlegan styrktar- og auglýsingasamning sem hún gerði við Reebok.

 

Leiðrétting: Í Viðskiptablaðinu í dag er Helga Torfadóttir sögð æfa hjá Crossfit Iceland. Hið rétta er að hún æfir hjá Crossfit eykjavík. Eru hluteigandi aðilar beðnir velvirðingar á þessum mistökum.

Stikkorð: Crossfit  • sport og peningar