*

Tölvur & tækni 8. febrúar 2012

Fyrirtæki Richard Branson kemur loks út í plús

Kapalsjónvarpsstöð bresks ofurhuga hefur skilað tapi í þrjátíu ár. Fleiri kjósa nú að horfa á sjónvarpsefni á netinu en áður.

Virgin Media, kapalsjónvarpsstöð í eigu fyrirtækjasamstæðu að miklu leyti í eigu breska athafnamannsins og ofurhugans RIchard Branson, hagnaðist um 75,9 milljónir punda, jafnvirði tæpra 15 milljarða íslenskra króna. Þetta er stórt skref í sögu fyrirtækisins enda hefur það skilað tapi í næstum þrjátíu ár. 

Virgin Media varð til við samruna þriggja fyrirtækja, NTL, Telewest og Virgin Mobile árið 2006. Fyrirtækin glímdu öll við hallarekstur. Fyrirtækið er það fyrsta utan fyrirtækjanna sem hefur gert samning við bandaríska tæknifyrirtækið TiVo um leigu á kvikmyndum og öðru sjónvarpsefni og dreift er um háhraðanet. Um 12% viðskiptavina Virgin Media nýta sér TiVo-þjónustuna.

Samkvæmt frétt breska dagblaðsins Guardian af málinu er hagnaðurinn lítill í hlutfalli við tekjur fyrirtækisins. Þær námu rétt tæpum fjórum milljörðum punda í fyrra. Bætt afkoma skýrist ekki síst af því, samkvæmt blaðinu, að áskrifendum að kapalrásum hefur fjölgað upp á síðkastið. Þeir eru nú 435 þúsund talsins. Rúmur helmingur þeirra bættist við hópinn á síðasta ársfjórðungi þegar 273 þúsund keyptu áskrift. 

Guardian bendir á að Virgin Media hafi agnarlitla markaðshlutdeild á stafrænum sjónvarpsmarkaði. BT Group er með 80% hlutdeild en Virgin Media 4%.